Ég heilsa ykkur.
Mörgum manninum hefur liðið illa vegna þess að ástin í lífi hans fór
frá honum. Hér verður reynt að gera grein fyrir því að þetta er ekki
jafn alvarlegt og það lítur út fyrir að vera og að þessi svonefnda
ástarsorg er bara náttúrunnar blekkingarleikur.
Hvað erum við mennirnir, og af hverju erum við að láta það angra
okkur að einhver annar maður fari frá okkur?
Tökum til athugunar tiltekinn mann sem verður ástfanginn. Hver
er tilgangurinn með þessu? Vísindamenn hafa bent á að í gamla
daga var ástin eins konar hvatning fyrir karlmenn til þess að
færa mat heim til konunnar og barnanna. Þar að auki var ástin,
og er enn, furðulegt uppátæki náttúrunnar til þess að menn finni
sér maka og viðhaldi þannig mannkyninu.
En af hverju látum við það angra okkur þótt að ástin okkar fari
frá okkur? Af hverju getum við lent í ástarsorg?
Prófum aðeins að líta á björtu hliðarnar: Maðurinn er ekkert annað
en samansafn af fjölmörgum frumum. Af hverju er það svona mikið
vandamál þó svo að eitthvert safn af frumum fái ekki að vera með
öðru safni af frumum? Það er góð spurning og ég segi bara að ég
hafi ekki eina einustu hugmynd.
Stærðfræðingar myndu ef til vill líta á mann sem frumnamengi, þ.e.
mengi af frumum. Hvað er svona alvarlegt við það að mengi sé að
fara frá öðru mengi? Það hef ég ekki hugmynd um.
Klassískir eðlisfræðingar gætu litið, sér til gamans, á manninn sem
samansafn af óendanlega mörgum punktmössum. Af hverju erum
við að kippa okkur við það að punktmassar séu að fara frá öðrum
punktmössum? Enn og aftur hef ég ekki glóru.
Skoðum nánar líffræðina í þessu. Segjum að stúlka sem piltur nokkur
elskaði, hafi farið frá honum. Af hverju lét pilturinn þetta angra sig?
Er eitthvað alvarlegt við það að eitt stykki af heila, hjarta, tvö nýru,
tíu fingur og ein gallblaðra, ásamt fleiri líffærum, séu að fara frá
honum? Nei það held ég nú aldeilis ekki. Þeir sem svara þessu ját-
andi myndi ég segja að væru aldeilis miklir furðufuglar. Það eru
nefnilega ótal margir heilar og ótal mörg nýru í heiminum. Svo ekki
sé nú minnst á fingur.
En þrátt fyrir þetta allt verður því ekki neitað að menn lenda samt í
ástarsorg. En mér þykir ljóst að tilgangur hennar er enginn, annar
en að angra gjörvallt mannkynið. Þetta er eitt af leiðinlegum furðu-
verkum náttúrunnar og ekkert annað en það.
En síðan hvenær hefur manninum ekki tekist að klekkja á náttúrunni?
Til dæmis hefur mönnum nú tekist að klóna dýr og þar erum við að
brjóta gegn náttúrunni. Sama gildir þegar efnafræðingar framleiða ný
efni, sem áður voru óþekkt, þótt skammlíf séu.
Ef ofansögð orð eru höfð í huga, þá held ég að manninum gæti einnig
tekist að ná sér að fullu á fyrirbærinu ástarsorg. Það þarf bara ein-
beitingu til, og örlitla vitneskju um nokkrar staðreyndir, sem hér að
ofan voru taldar upp.
Örvæntið því ekki þegar þið lendið í umræddum hremmingum. Hafið í
huga hvað það er í raun sem er að fara frá ykkur. Reynið að sjá
fyrir ykkur heildarmynd af því kvikindi (hvað erum við mennirnir
annað en kvikindi?) sem frá ykkur fer. Lítið á björtu hliðarnar: Það
eru mörg kvikindi í heiminum, og þið deyið varla ef að þið fáið ekki
að hafa samskipti við eitt þessara kvikinda.
Ég kveð í bili.
Evklíð.