Ég ætla að byrja á því að taka það fram að ég er komin á þrítugsaldurinn og því engin gelgja í dramakasti, svona til að kæfa skítköst af því tagi í fæðingu.
Ég hef verið í þónokkrum samböndum á minni ævi en augljóslega, eins og titillinn gefur til kynna, hefur ekkert þeirra enst. Ekki bara það heldur hef ég komist að þeirri niðurstöðu að mig skorti gjörsamlega hæfileikann til þess að greina sauðina frá úlfunum þegar kemur að strákamálum. Ég er farin að halda að ég verði einfaldlega ekki hrifin af góðu gæjunum.
Einu góðu strákarnir sem ég hef verið með (bara tveir) eru þeir sem ég missti áhugann á og sambandið einhvern veginn dó út án nokkurrar ástríðu. Allir hinir sem ég hef verið með hafa verið algerir skíthælar eða komið illa fram við mig á einn hátt eða annan. Þá er ég ekkert endilega að segja að þeir hafi gert það viljandi eða að þeir hafi verið hreinlega vondir gæjar. Það virðist bara vera staðreynd að ef gaur er ekki orðin skíthæll þegar ég byrja með honum að þá verður hann það með mér. Kannski er það bara mér að kenna, en ég vona a.m.k. ekki.
Ég er nær blind þegar kemur að ástamálum. Til að útskýra það frekar hef ég tekið hér til nokkur dæmi um þá „frábæru“ mannkosti sem mér hefur tekist að velja mér:
a) Gaur sem var „workaholic“ og eðlilega dó það samband út.
b) Gaur sem dópaði á bak við mig, nauðgaði mér og byrjaði einnig með annarri stelpu á sama tíma.
c) Gaur sem var haldinn gífurlegri tortryggni og vantrausti (að ástæðulausu) og hélt mér fanginni í sumarbústað úti á landi í nokkra daga með morðhótunum og ýmsu fleiru.
d) Gaur sem var yndislegur í byrjun en reyndist svo með geðsjúkdóm og ofsótti mig eftir að ég sleit sambandinu og leiddi það til þess að ég þurfti að fá nálgunarbann (ekki að það breytti neinu).
e) Gaur sem byrjaði og hætti með mér nokkrum sinnum og hélt framhjá mér og annar sem byrjaði með mér og átti síðan kærustu fyrir.
Af þessu má sjá að ég er gersamlega vonlaus þegar kemur að þessari hlið lífins þó að vísu megi ég kannski eiga það mér til varnar að ég hafði þó vit á því að koma mér út úr þessum aðstæðum þegar í harðbakka sló. Maður hefði haldið að manneskja sem klár á öllum öðrum sviðum hefði fengið einhverjar gáfur aukreitis fyrir þessi mál en svo var því miður ekki.
Því er svo komið núna að ég hef ákveðið að gefa ástina upp á bátinn og einbeita mér að þeim sviðum lífs míns sem ég hef þó eitthvað vit á og hef velgengni að fagna, eins og frama mínum og áhugamálum. Mér þykir það ósköp tilgangslaust að vera að veita einhverju tækifæri sem er til þess eins fallið að eyða tíma manns án þess að nokkuð gott komi út úr því annað en að maður sé vitur eftir á.
Það eina sem gerist er að maður eyðir tíma sínum með einhverjum sem verður horfinn út úr lífi manns eftir nokkra mánuði, ár eða svo, sinnir vinum sínum ekki nóg á meðan, tekur orku frá námi og vinnu og skilur mann svo eftir þunglyndan og brotinn með mikla vinnu fyrir höndum til að byggja sig upp… til þess eins að láta brjóta sig aftur í næsta sambandi.
En nú langaði mig að spyrja ykkur. Er ég harðbrjósta að setja ástinni stólinn fyrir dyrnar og ákveða að halda áfram með mitt líf án þess að gefa henni nokkuð rúm? Finnst ykkur þessi ákvörðun mín „meika sens“ í ljósi fyrri sögu eða er ég bara að gefast upp?