Mjer hefir ætíð þótt það hjákátleg sjón, að sjá bólugrafna taðskegglinga íklædda í jakkaföt með axlarpúðum og öllu tilheyrandi.

Jafnvel þó svo að sjerstaklega gaman sje að sjá lítilmegnug höfuðin hverfa í axlarpúðana er það jafnvel skemmtilegra að hugsa til þess augnabliks er fötin voru keypt. Í slíkum verzlunarleiðangrum draga mæðurnar syni sína milli fataverzlana og klæða þá í hver jakkafötin á fætur öðrum. Synirnir eru með fastmótaðan fýlusvip á andliti en mæðurnar hafa hinsvegar af því mikla skemmtan að velja utan á þá tuskurnar.

Þegar kemur loks að því að brúka fötin senda þær syni syni sína í bað og þvo þeim rækilega með svampi. Eyrun fá sjerstaka alúð enda felst sönn karlmennska í því að hafa tandurhrein eyru. Að baðinu loknu færa þær syni sína í jakkafötin, sem hverjar aðrar dúkkur og tárast síðan og kjökra yfir því hvursu myndarlegur og stór strákurinn þeirra sje nú orðin. Síðan fá þær sjer eitt “sherryglas” til að jafna sig og senda svo strákinn sinn litla á vit ævintýranna með rauðan varalit á enninu, þeim til halds og trausts. *

Feðurnir hafa það hlutverk keyra soninn til skralls, kýla hann í öxlina í kveðjuskyni og hvetja hann til dáða.

En eigi stúlka í hlut kemur annað hljóð í skrokkinn. Þá fyllast þeir miklum áhuga á klæðaburði barna sinna. Þeir fá nefnilega hroll af tilhugsuninni um allar litlu hormónasprengjurnar sem eru þarna úti og elta á sjer nýuppgötvaðan dindilinn í leit að ævintýrum. Sennilegast munu flestir þeirra gera sitt bezta til að tæla stúlkurnar þeirra litlu til augngotna, franskrar kossagerðar, eða þaðan af verri hluta.

Ganga þeir því vandlega úr skugga um að pils dætranna sjeu í rúmri hnjesídd, vitandi það að ekkert kveikir náttúruna betur í piltum heldur en berar hnjesbætur. Helst vildu þeir þó klæða dætur sínar í rúllukragapeysur og spenna á þær skírlífisbelti, sem þeir myndu læsa tryggilega með lykli sem stungið væri eftirleiðis með tveim fingrum í brjóstvasann, til öruggrar geymslu.
*
það þekkist reyndar einnig að þær sleiki á sjer puttann og þrífi varalitinn í burtu. Mjer lærðist hinsvegar snemma hvenær von væri á varalit á ennið, móður minni og pipruðum frænkum til mikillar mæði.

www.kaffisterkt.blogspot.com
Og að lokum legg ég til að Karþagó verði lögð í eyði.