Ég er hætt að nenna gera hluti. Ég neyði sjálfan mig í skólann og reyni að sleppa lifandi í gegnum daginn. Ég sef í tímum og reyni að komast hjá því að hugsa. Ég var svo miklu duglegri á síðasta ári. Þá notaði ég hvern tíma sem ég gat til að teikna, skrifa eða gera skemmtilega og skapandi hluti. Núna er ég hætt þessu öllu saman… nú er ég ástfanginn af strák.
Ég hitti þennan strák í gegnum bróður minn. Nú ræður þessi strákur lífi mínu. Hann neyðir mig ekki til að gera hluti, ég er ekki að meina það þannig. Ég hugsa bara mjög mikið um hann. Ég get ekki skrifað án þess að hugsa um hvað hann skrifar góðar sögur, ég get ekki teiknað án þess að hugsa um hvað hann er fallegur og ég get ekki samið tónlist án þess að það verða einhver væmin ástarlög.
En þessi strákur er það besta sem hefur hent mig. Mér líður almennt betur þegar ég er með honum en þegar ég er án hans er ég að farast. Við rífumst eins og hvert annað par og oftast er það um hvað mér finnst hann stundum vanrækja mig. Eins og þegar hann er með vinum sínum. Ég er alveg hætt að vera með vinkonum mínum og heng eiginlega bara með hljómsveitinni og honum. Ég heng líka með vinkonum í skólanum en það eru vinkonur sem búa einhversstaðar allt annarsstaðar en ég og ég er ekkert með þeim eftir skóla. En þessi strákur, hann vanrækir mig í rauninni ekki. Honum finnst hann þurfa skammta tíma á alla í kringum sig, mig, vini sína og fjölskyldu. Svo þarf hann líka tíma fyrir áhugamálin sín og þá er enginn tími eftir. Hann lærir oftast seint á kvöldin/næturna því hann hefur verið svo upptekinn allan daginn.
Við erum ekki í sama skóla og hittumst oftast eftir skóla. Ég er alltaf lengur en hann í skólanum þannig hann sefur oftast þegar hann er kemur heim úr skólanum. Svo þegar ég kem heim úr skólanum þá er ég oftast búin að læra því ég er oftast í einhverjum eyðum sem ég nota til þess að læra. Eftir skóla er það fyrsta sem ég geri er að hringja í hann. Ég vek hann oftast og við tölum saman í svolítinn tíma. Svo hittumst við alltaf á kvöldin ef ekki fyrr. Við erum farin að gista hjá hvor öðru virka daga og foreldrar okkar eru ekki nógu sáttir við það. Ég ætla að taka það fram að við erum búin að vera saman í fjóra mánuði. En þetta með að gista hjá hvor öðru virka daga, það hefur alveg virkað hjá okkur. Þegar hann gistir hjá mér fer hann aðeins fyrr heim á morgnanna svo hann geti haft sig til og tekið til skóladótið og fleira en ég hef oftast haft bara skóladótið með mér til hans á kvöldin. Þannig þetta hefur bara þrælvirkað.
Við erum mjög mikið saman og erum farin að gista heima hjá hvor öðru marga daga í röð. Við búum í sama bæ og allt í lagi með það. En erum við OF mikið saman? Ég elska þennan strák og ég vil alltaf vera með honum en þurfum við ekki smá tíma fyrir okkur? Hann er svolítið oft kvartandi yfir því að hann fær of lítinn tíma til að vera einn með vinum sínum og ég er að reyna gefa honum tíma til þess að gera það. En þegar hann fer til vina sinna er ég oftast bara heima og veit eiginlega ekkert hvað ég á að gera. Mér finnst ég ekki geta gert neitt því það eina sem ég hugsa um er hann og hvað hann sé að gera núna. Það er eins og ég sé bara róleg þegar við erum saman!
Að lokum vil ég spyrja ykkur, er ég of eigingjörn á hann?
Hvað á ég að gera til að geta einbeitt mér að öðrum hlutum?
Erum við OF mikið saman miðað við að við erum bara búin að vera saman í fjóra mánuði?
Vonast til að fá einhver svör.
Takk fyrir.