Sælir allir hugarar!
Mig langar að vita hvort einhverjir ykkar hafi lent í svipaðri reynslu og ég og/eða hafi góð ráð til að gefa mér.
Þannig er mál með vexti að síðasta hálfa árið er ég búin að vera í sambandi með útlenskum strák. Við hittumst reyndar í flugrútunni þegar hann var að flytja til landsins og ég var að koma aftur heim eftir ársdvöl erlendis. Við töluðum svolítið saman þá og ég gaf honum númerið mitt til að ég gæti sýnt honum borgina og svo framvegis. Við hittumst reglulega þartil fjórum vikum seinna þegar við byrjuðum að vera saman. Sambandið gekk að mörgu leyti ágætlega, nema að því leyti til að við höfðum afskaplega lítinn tíma saman, ég var (og er) í þungu háskólanámi og í svo gott sem fullri vinnu með því, og hann var í náms- og vinnuferð að gera mælingar og rannsóknir í íslenskri náttúru, og var mikið úti á landi, ekki síst um helgar. En stundirnar okkar saman voru mjög innilegar og ég taldi mér í trú um að ég væri orðin ástfangin af honum. Ég var samt svolítið efins á framtíðina okkar því að hann var hér auðvitað bara tímabundið, og fór svo heim til síns lands. Ég bjó í því landi sjálf fyrir nokkrum árum og tala tungumál þess nokkuð vel, og gæti ekki hugsað mér að flytja þangað aftur, ekki nema í mesta lagi í nokkra mánuði. Ég passaði samt að velta mér ekki of mikið upp úr framtíðinni og áhyggjum heldur bara njóta samverunnar með honum og sjá hvað tæki síðan við.
Nema hvað, við kvöddumst á Keflavíkurflugvelli um jólin og ég sagði að ég vildi endilega halda sambandinu gangandi, ég myndi koma bráðum í heimsókn og við myndum finna út úr þessu, hann gæti líka örugglega fengið vinnu á Íslandi ef hann vildi. Hann sagði að við skyldum sjá til með þetta, hugsanlega myndi fjarlægðin stía okkur í sundur og fleira. Ég varð svolítið leið að heyra þetta, og taldi að hann hefði engan áhuga á þessu.
En bara nokkrum dögum síðar fattaði ég að ég saknaði hans eiginlega ekkert. Ég hafði ekkert verið neitt ástfangin, heldur bara skotin, og byrjaði strax ómeðvitað að skima í kringum mig eftir öðrum karlmanni, en það er venjulega ekki mér líkt. Ég ætlaði að fara að segja við hann að það væri best að við héldum bara sambandi sem vinir, þarsem við ættum hvort eð er enga framtíð saman, en þá hringir hann í mig nánast grátklökkur og sagðist sakna mín svo hræðilega, hann væri búinn að komast að því að hann gæti ekki án mín verið. Hann sagðist vera búinn að berjast við þessa tilfinningu allan tímann sem við þekktumst af því hann taldi að við myndum ekki geta verið saman, og að hann hefði verið að blekkja sjálfan sig þarna á flugvellinum. Hann vill að ég komi til hans í heimsókn bráðum, og að ég verði hjá honum allt sumarið. Eftir það er hann til í að flytja til Íslands.
Ég er með hræðilegt samviskubit!! Mig langar ekki til að vera í sambandi með honum, þótt hann sé yndisleg manneskja og allt það. Mér finnst þetta vera allt mér að kenna, og ég veit ekki hvað ég á að segja við hann þannig að hann skilji að ég beri ekki sömu tilfinningar til hans, án þess að særa hann of mikið.
Það hvarflar að mér sú tilhugsun að ef ég hefði ekki verið svona tilfinningasöm þarna í lokin hefði hann kannski ekkert haft eins mikinn áhuga. Ég tel mig hafa logið að honum án þess að það hafi í raun verið ætlunin.
HJÁLP!! Hvernig er hægt að komast út úr svona aðstæðum? Ég vil nefnilega hvorki særa hann né lifa í neinni blekkingu, hvorki á sjálfri mér né honum!
Með kveðju,
eaue

PS. Plís ekki skítkast! Ekki mikið allavegana…