Ég vil taka það fram að þessi grein er skrifuð til að létta á mér. Það hefur svo margt safnast saman inni í mér núna að ég er bara við það að springa.

Ég kynntist þessum æðislega gaur. Í fyrsta skipti sem ég sá hann fannst mér hann hræðilegur, mjög mjór og einhvern veginn ekki mín týpa. En einhvern veginn æxluðust hlutirnir þannig að ég varð skotin í honum og hann virtist vera eitthvað heitur fyrir mér. Til að gera langa sögu stutta þá ákváðum við að vera bólfélagar og það var rosalega gaman. Við hittumst nokkrum sinnum í viku og á vissan hátt leið mér eins og ég væri í sambandi en samt vissi ég að þessu fylgdi engin ábyrgð (en ég er ein af þeim sem eru hrædd við skuldbindingar). Auðvitað gerðist þetta týpíska og ég varð alveg rosalega hrifin af honum. En mér fannst það allt í lagi því hann virtist vera frekar hrifinn af mér.
Á tímabili hélt ég að hann væri sá eini rétti fyrir mig, hélt að ég væri orðin ástfangin af honum og ætlaði að fá taugaáfall. Ég hafði nefnilega sagt honum að þar sem ég væri ekki tilbúin fyrir alvöru samband þá myndum við hætta þessu um leið og ég yrði (ef ég yrði) alveg allt of hrifin af honum. Hann samþykkti það alveg þar sem hann vildi ekki heldur skuldbinda sig. Þennan dag lét ég mjög skringilega og vissi ekkert hvað ég átti að gera. En ég sleit þessu ekki.
Nokkrum dögum seinna sleit hann þessu.
Í fyrsta skipti fannst mér ég finna hvernig það væri að láta dömpa sér. Ég skildi núna vinkonur mínar sem hafa grátið eftir að hafa verið dömpað því mér leið frekar illa. En við ákváðum auðvitað að vera vinir. Ég grunaði hann reyndar um að vera orðinn skotinn í bestu vinkonu minni en sagði ekkert. Ég spurði hana en hún neitaði fyrir að vera nokkuð skotin í honum en viðurkenndi í leiðinni að hún væri hrifin af öðrum vini mínum.
Þetta var ekkert mál, ég fékk bónusdrátt og get í rauninni ekki kvartað yfir því en það þyrmdi yfir mig þegar blæðingarnar byrjuðu ekki á réttum tíma.
Daginn sem ég var að drepast úr áhyggjum yfir því hvort ég væri ólétt eða ekki komst ég að því að hann og besta vinkona mín höfðu eytt deginum áður í mestu sælu saman. Og heimurinn bókstaflega hrundi.
Sem betur fer studdu tveir vinir mínir við bakið á mér og hjálpuðu mér að takast á við þetta. Þeir stóðu ekkert meira með mér en hinum tveimur, heldur bara hjálpuðu mér, knúsuðu mig og dreifðu huganum.
Um kvöldið talaði ég við þessa “bestu” vinkonu mína og hún baðst fyrirgefningar og grét og grét. Hún lofaði mér því að segja mér frá því ef hún yrði hrifin af sama strák og ég í framtíðinni því ég mundi aldrei hindra tvær manneskjur í að vera hamingjusamar. Það finnst mér ekki vera merki um vináttu, það er ekkert nema eigingirni.
Ég talaði við strákinn daginn eftir. Hann sagðist hafa ýtt tilfinningum sínum til mín til hliðar því þær hefðu ruglað hann of mikið. Mér fannst einsog hann hefði hent mér í ruslið. Hann vill meina að ég sé eitt af því sem er mjög gott í lífi hans og ég sé manneskja sem hann geti talað við um allt en ég veit ekki hvort ég treysti því.
Þó ég segði áðan að ég mundi aldrei hindra hamingju tveggja manneskja þá á það ekki við í þessu tilfelli. Ég hef sagt þeim báðum að ég mundi ekki meika það ef þau væru saman (þó þau eigi hvort annað skilið). Opinbera ástæðan er sú að þá finndist mér þau vera að gefa skít í mig (sem þau gerðu) og sýna mér endalaust virðingarleysi (sem þau eru búin að gera) en ég setti þetta skilyrði. Vinátta mín og stráksins byggist á þessu skilyrði því ef þau verða saman í einhvern tíma vil ég ekki vera vinkona hans. Vinkona mín fær ekki sömu skilmála en hún veit að ég treysti henni ekki lengur og hún verður að vinna traustið aftur ef hún vill að við verðum bestu vinkonur eins og áður.
Það sorglegasta við þetta allt saman er að ég er ennþá hrifin af þessum strák. Og nei, ég er ekki ólétt. Bara sár og tortryggin. Það tekur smá tíma að lagast en maður verður eins og ný manneskja eftir viku eða tvær.
Ég vona bara að ég hitti einhvern nýjan núna bráðlega svo ég geti gleymt þessum strák sem særði mig svona. En ég veit allavega núna fyrir víst að kvenmenn eiga alltaf að treysta kvenlega innsæinu. Það hefur yfirleitt rétt fyrir sér. Allavega í mínu tilfelli.

“For they who feel life is a tragedy,
for they who think life is a comedy.”

Með jólakveðju,
bestseller.

PS. Ég óska ekki eftir svörum við þessari grein.