Sé nú ekki að hann hafi verið að nota áfengi sem mikla afsökun.
Sýnist hann einmitt vera mjög viss á sinni sök.
Áfengi getur verið ástæða eða ein af ástæðunum fyrir einhverjum verknaði en mjög sjaldan fullkomin afsökun fyrir hegðun.
Maður hefur sjálfur oft látið eins og algjört fífl í gegnum djamm árin og hegðað sér á máta sem maður myndi ekki gera undir eðlilegum aðstæðum, en það þýðir ekki að manni hafi verið skipt út fyrir aðra manneskju um leið og maður fær sér í glas.
Þó svo að ég sé á móti þeirri trú sumra að manns innri maður komi í ljós þegar maður drekkur þá er ég viss um að hinar og þessar stundarpælingar og svona impulse-hugdettur geta orðið að verknaði þegar maður er undir áhrifum og það er ekki nema að einhver annar fái mann til einhvers (sem er reyndar ekki of erfitt þegar maður er drukkinn) að flestar ástæður fyrir einhverri tegund af hegðun undir áhrifum komi frá manni sjálfum. Þannig að maður getur ekki afskrifað allt sem maður gerir fullur, en þær mynda þó bjagaða mynd af manni sjálfum.
Ef maður hefur ástæðu til þess að vilja ekki að ímynd manns bjagist og að maður gerir heimskulega hluti þá er einfaldasta lausnin að minnka drykkjuna bara.
Partur af því að “verða fullorðinn” er að átta sig á því hvernig maður hegðar sér undir áhrifum og að meta kosti og galla drykkjunnar útfrá því.
Þegar fólk gerir heimskulega hluti þarf maður að líta aðeins á hvaða þættir urðu til þess að maður lét svona og passa uppá að þessir þættir séu ekki til staðar næst þegar maður fær sér í glas.
Ef fólk er að vakna daginn eftir og vill helst bara vera undir sæng af skömm yfir því hvernig það hegðaði sér kvöldið áður ætti kannski að spá aðeins í spilin og læra að drekka uppá nýtt.
Margir “læra” að drekka í menntaskóla, og þau gildi sem þar ganga virka ekki alveg jafn vel þegar maður er orðinn eldri.
Því miður eru sumir sem ná þessu aldrei og drekka ennþá eins og þeir séu að fara á skólaböll með hormónin og egóið í fimmta gír.
Menntaskólaböllin virka oft sem tækifæri til að næla sér í einhverja manneskju af gagnstæðu kyni, fólk þarf að vera orðið nógu drukkið til að haldast ölvað út skólaballið og fleira sem er ekki í raunverulegu samhengi við hvernig “djammið” verður með árunum.
Maður varð oftar var við slagsmál á djamminu þegar maður var í menntaskóla en þegar maður var kominn með aldur til að komast inn á skemmtistaði(þó svo að það er ennþá til staðar).
Djammið á menntaskóla aldrinum er versta tegund af djammi fyrir manneskju í sambandi. Fólk verður ofurölvað og líkt og bíllyklarnir seinna meir eru heilasellurnar látnar liggja eftir heima.
Ástæður fyrir framhjáhaldi eru mun algengari hjá fólki sem djammar á þennan máta en þeim sem geta sötrað sitt vín og bjór í rólegheitunum, án þess að þurfa að hafa áhyggjur af því að verða orðið nógu ölvað til þess að þrauka út ball.
Ég veit vel að krakkar í menntaskóla djamma ekki bara fyrir böll, en samt prentast inn viss drykkju-“aðferð” af þessu ball-djammi sem gengur oft yfir helgar-djammið líka og það tekur mann ágætis tíma eftir menntaskólann að kunna að meta áfengi upp á nýtt og á nýjan máta.
Maður finnur það alveg að það er munur á því að hella sig fullan á stuttum tíma og að sitja rólegur með bjórinn sinn og vera ekkert að spá í því hvort maður sé að fara eitthvað að detta í það eða bara taka því rólega með nokkra bjóra.
Þið megið geta til hvort fyrri eða seinni aðstæðurnar fá mann til að gera heimskulegu hlutina.
Ein besta leiðin til þess að læra að hegða sér almennilega á djamminu er að fá sér nokkrum sinnum í glas í kringum foreldrana. Maður lærir að vera örlítið meðvitaðri um sýna drykkju á þann máta og foreldrarnir eru ekkert hræddir við að benda manni á ef maður er eitthvað skrýtinn.
Ef fólk er virkilega mikið að fá komment á sig um að það séu algerir vitleysingar á djamminu þá ætti það kannski að taka sig upp á video í partýi og horfa á það daginn eftir, eða næst þegar það ætlar að fara að djamma.
Maður gerir sér oft ekki jafnvel grein fyrir því og aðrir í kringum mann hvernig maður virkilega hegðar sér þegar maður er drukkinn og það getur skapað vandamál þegar maður er sífellt að fara yfir strikið í einhverri hegðun.
Jæja, ég ætla ekki að predika meira í bili.