Engin er rósin á þyrna. Þetta hentar mjög vel sem líkingarmál varðandi sambönd að mínu leyti. Mínu sambandi hef ég skipt eftir árum (3 ár komin núna)og flokka þetta svona:
Fyrsta árið þá lifum við í paradís þar sem sífellt einhverjar nýjungar koma upp á yfirborðið, bæði góðar og slæmar en fjölbreytnin drífur mann áfram sem og tilfinningin hvernig þið færist nær hvort öðru.
Annað árið er eins og að vakna af værum svefni. Maður veit ekki alveg hvað á sér stendur veðrið en reynir að aðlagast nýjum aðstæðum, þ.e. hálfpartinni stöðnun og hinn mikli losti sem var í upphafi breytist í vanafastan takt sem hvorugt vill brjóta mikið út af. Þetta ár er ár aðlögunar þar sem báðir aðilar eru að átta sig á að þeir séu ekki einir í heiminum lengur og taka þarf tillit til hinnar manneskjunnar eins mikið og maður tekur tillit til sjálfrar síns.
Þriðja árið er eins og okkur sé skellt út í raunveruleikann. Allt er fastmótað og maður sjálfur uppgötvar að maður vill halda í það gamla, en er alltaf að vona eftir því að lostinn, fjölbreytnin og hraðinn komi aftur. Samt eru kostirnir margir. Þú kannt að bregðast við og skilur öll leyndu skilaboðin sem maki þinn gefur ósjálfrátt frá sér og samskiptin fara frekar þægilega fram.
En maður bíður og bíður eftir einhverri tilbreytingu og á endanum venst maður því að bara að bíða og kannski vona. Samt er maður sáttur og vill helst ekki gera neitt í þessu, því er eitthvað betra til?
Ég held ekki þar sem ég hef lent í þessu áður en tali nú hver fyrir sig.
Ég vil taka það fram að ég elska unnusta minn mjög heitt og saman höfum við gengið í gegnum fjöldskylduvandamál, peningaþrautir, langvarandi atvinnuleysi og mikil og skyndileg veikindi. En þetta er svona tilfinning sem ég fæ stundum og hugsa; er þetta allt saman? Kemur ekkert meira?
Kannski gerist eitthvað á endanum og því hugsa ég með mér:
Hvernig skyldi 4 árið verða?