Ég er komin á það sem er kallað þrítugsaldur…en hræðilegt orð. En, engu að síður staðreynd (reyndar er ég á fyrsta fjórðungi þriðja tugs æviára minna (ef einhver náði þessu)).
Og, já, ég er ein af þessum hræðilegu konum sem er talað um í fjölskylduboðunum með lágværum en kaldhæðnum tón “Nei, hún er ekki ENNÞÁ komin með kærasta… Ég skil ekkert í þessu…Svona geðug og góð stúlka…Það vantar nú ekki gáfurna á þann bæinn…en það virðist vera eitthvað…”
Svo er slegið í öxlina á mér sett upp sparibrosið og sagt með sakleysissvip (eins og ég hafi ekki heyrt hvað var verið að segja rétt við bakið á mér ekki tveimur mínútum áður): “Og hvað, ekki kominn með neinn kall?” Og ég neyðist til að svara enn einu sinni: “Nei, veistu að ég er bara ekki ennþá búin að finna neinn sem er nógu góður fyrir mig!” Lymskulega glott kemur fram “jæja, já og hvernig gengur í vinnunni?”
Ekki misskilja mig. Ég hef ekkert á móti fólki sem er á föstu, þvert á móti. Mig langar bara að vita í hvaða bók var það skrifað að maður væri ekki heill nema hafa einhvern hangandi aftaní rassgatinu á sér?
Það er sjálfsagt frábært að hafa einhvern til að deila deginum með.
En hvað er að því að vera bara einn?
Hvaðan kom öll þessi pressa?
Hver sagði að maður ÞYRFTI endilega að vera með einhverjum?
Ekki það að ég hefði eitthvað á móti því að vera með einhverjum (held ég), en eins og ég segi í öllum fjölskylduboðum og meina “Ég hef bara ekki fundið neinn sem er nógu góður fyrir mig!!!”
Af hverju gerir það mig að minni manneskju?
Það sem mér finnst samt fyndnast af öllu er að þrátt fyrir að frænkurna vilji koma inn hjá mér þeirri dyllu að án karlmanns sé ég ekkert, þá hafa allar vinkonum mínar sem eru eða hafa nokkurn tíma verið á föstu sagt við mig oftar en einu sinni “þú ert svo heppin hafa ekki verið á föstu”. Ég svara að sjálfsögðu að ég myndi ekki vita muninn og geti því ekki að sönnu samþykkt það. Og þær verða samúðarfullar og segja “nei, sjálfsagt ekki. En hvernig gengur annars í vinnunni?”
Því þrátt fyrir hugrökk orð þá vita þær líka að þær eru ekkert án karlmanns!
diaphanous
Who wrote the book of love?
Ég veit það ekki en ég hefði ekkert á móti því að gefa þeim hinum sama eitt laglegt hríðspark í hausinn því sá hefur, hingað til, ekki verið að gera mér neina greiða!!!