Það var einn fagran sunnudaginn að ég rölti niður á kaffihúsið þar sem ég ætíð mitt sunnudagskaffi drekk, enda dejligt kaffi þar á könnunni. Sat ég þar í mesta sakleysi og horfði á smáfuglana út um gluggan þegar inn óðu “skopparar” svokallaðir, sem frægt skáld nefndi kúkalabba, því þeir minna svo mjög á þá fornu skítapésa í fasi öllu og buxnasmekk, og mætti halda að þeir gengu um með, afsakið órómantískan talsmáta hér á þessari fögru síðu, kúk í buxunum, já. Það er kannski þessi skoppandi kúkur í buxum þeirra sem orðið skoppari er komið af?
Skopparar þessir sátu á næsta borði og ræddu um dreng einn í Ameríku sem heitir eftir smartís einum Amerískum, sem samsæriskenningar segja að sé framleiddur á Area 51. Ég er hér að tala um hinn alræmda M&M eða Eminem að sjálfsögðu. Hófu þeir eftir honum klámfengnar ástarvísur hans ásamt nýðkvæðum sem drengur sá hefur samið um móður sína.
Hálfnaktar telpur sátu hinum megin við mig, með beran magan.
Þær ræddu um rassa skopparanna, sem mér fannst undarlegt þar sem þeir voru vart sýnilegir í buxnaskrýpum þessum, og aðra miður fagra og ókvenlega hluti.
Ég dró fram ljóðabók litla sem ég ætíð geng með með ljóðum Jónasar Hallgrímssonar, og hugsaði um fagra tíma, þegar stelpur hvísluðu um augu drengja, og drengir lásu ljóð Jónasar Hallgrímssonar, en ekki nýðkvæði um móður klámtextahöfunds sem heitir eftir smartís.
Öld rómantíkersins virðist liðin. Þjáningin ein bíður okkar.
Ég er að hugsa um að flytja til fjarlægra landa þar sem enn þekkist rómantík, ellegar stofna mína eigin nýlendu fólks sem kýs að lifa við siðfágun, kurteis og rómantík þá sem tíðkaðist á fornum tímum.
Eigi þoli ég skopparalýð þennan og ódönnuð kvæði hans.
Illa hefur farið fyrir þjóðinni sem sveik Danakonung.