Hmm, ástfangin? Er það ekki bara svona þegar maður er með einhvern fiðring í maganum yfir einhverri persónu? Er það að vera ástfanginn það sama og að elska? Ég veit að ég elska kærastann minn, og ég veit að ég vil eyða með honum ævinni, en er ég ástfangin af honum? Er hægt að vera ástfanginn eftir 6 og 1/2 ár? Er það hægt? Verður þetta ekki bara svona vani? Einhver rútína sem maður fer inní? Samt veit ég að ég elska hann, en ég upplifi kanski ekki neina sérstaka rómantík í sambandinu, frekar svona stöðugleika, öryggi, umhyggju jú og að sjálfsögðu ást.
Ég trúi ekki á eilífa ást og ég trúi heldur ekki á ást við fyrstu sýn. Ég trúi því að maður eigi að njóta ástarinnar á meðan hún varir. Og það er ekki að eilífu, amk held ég ekki! En ég er samt ekki að segja að það geti ekki gerst, auðvitað gæti þetta gerst hjá einhverjum, bara ekki hjá mér. Og ást við fyrstu sýn, hvernig er hægt að elska einhvern sem maður þekkir ekki? Ég mundi frekar kalla þetta hrifningu við fyrstu sýn, ekki ást. Mér finnst ekki vera hægt að elska einhvern nema maður þekki persónuna vel, sé búinn að kynnast henni/honum. Ég held að ást og hrifningu sé oft ruglað saman. Það er hægt að hrífast af einhverjum þegar maður sér hann, en ekki verða ástfanginn. Samt veit ég að sumt fólk talar um einhverja svona skrítna tilfinningu, eins og það hafi vitað að þessi aðili væri sá eini sanni eða sú eina sanna! Ætli maður viti það þegar maður hittir hinn eina sanna/hina einu sönnu? Verður þetta ekki bara alltaf einhversskonar rútína þegar líður á?