Til eru kenningar um hvað geri setningu sanna sem vísa til samhengis hennar við aðrar setningar eða annarra einkenna hennar. Ég ætla hinsvegar að sleppa öllum vangaveltum um slíkar kenningar og gera ráð fyrir að sannleikur setningar felist í einföldum hlut: Samsvörun hennar við það sem hún er um. Þannig er lýsing sönn, túlkun sönn, upprifjun sönn eða rétt ef það sem sagt er samsvarar atburðinum, eða hlutnum, eða því sem túlkunin, upprifjunin, lýsingin er um.
En nú er augljóst að það er ekki sama hvort við erum að tala um túlkun, lýsingu eða upprifjun þegar við skerum úr um sannindi eða ósannindi. Ef ég set til dæmis fram túlkun á hegðun fólks sem er á ferli í kringum mig, þá legg ég skilning í athafnir þess sem kann að vera réttur eða rangur og í mörgum tilfellum kann að vera ómögulegt að skera úr um hvort tiltekin túlkun er sönn eða ósönn. Upprifjun er alltaf háð túlkun og því er hún ekki síður erfið að eiga við en túlkun. Þegar vel er að gáð er hætt við að lýsing sé sömu annmörkum háð: Stundum er auðvelt að skera úr um hvort lýsing er sönn eða ósönn, stundum er það erfitt eða jafnvel ókleift.
“All work and no play makes Jack a dull boy.”