Tónleikar með Kimono og Fídel. Ég var mættur svolítið fyrir auglýstan upphafstíma 23:59. Eitthvað var þá fámennt í salnum en jafnt og þétt fjölgaði áheyrendum í ca. 50 hræður og að íslenskum sið hófust herlegheitin ekki fyrr en langt var liðið í eitt (ca 00:30) allt í góðu með það, við erum nú flezt íslendingar.
Fyrst komu Kimono á svið, ég hafði mikið hlakkað til að heyra í þeim því það hafði ég aldrei gjört áður. Þeir spiluðu hægt rokk sem var haldið saman með síendurteknum bassalínum sem flestar voru vel heppnaðar. Í takt við þetta spiluðust svo trommur sem fengu ekki að njóta sín til fullnustu því að gítararnir tveir yfirgnæfðu trommuleikinn. Gítararnir tveir spiluðu mezt sömu laglínurnar með mismunandi “sándi” á hvorum gítar fyrir sig og heppnaðist það mjög vel. En þar sem lítið var um söng hefði mátt nýta það betur að tveir gítarar voru í spilinu og hafa raddanir á milli þeirra. Lögin minntu óneytanlega mikið á lagasmíðar Útópíu (til dæmis) en þó var meira líf yfir þeim Kimono mönnum. Þeir byrjuðu rólega og færðu sig svo yfir í þyngra efni.
Niðurstaða: Skemmtilegir tónleikar með Kimono og ég hlakka bæði til að sjá þá aftur á tónleikum og sérstaklega til að heyra eitthvað frá þeim úr hljóðveri.
Seinni hljómsveit kveldsins var Fídel, þá hafði ég séð áður á tónleikum og hlustað heilmikið á diskinnn þeirra. Fídel spiluðu kröftugt hávaðarokk sem stóð á brún pönkhyldýpisins og riðaði til falls allan tíman. Gítarar og bassi héldu hávaðasynfóníu sem trommuleikarinn hélt föstum tökum utan um með föstum og öruggum trommuleik. Ofan á þetta bættist svo einhvurskonar söngur/öskur/væl/öskur/öskur. Fídel menn kynntu nýtt efni sem var afskaplega áhugavert og þess vert að menn leggi leið sína á Fídel tónleika til þess eins að heyra nýju lögin, ekki að það sé slæmt að heyra eldri lögin í tónleikabúningi. Fídel eru talsvert kröftugri á tónleikum en úr hljóveri.
Niðurstaða: Ég mæli eindregið með að menn fari á Fídel tónleika sem allra fyrst.
Þetta var skemmtilegt kveld og vil ég þakka Kimono og Fídel fyrir prýðilega skemmtan.