Það hefur verið mikil sorg hjá Who aðdáendum að undanförnu, hræðilegt að besti bassaleikari rokksins skuli vera allur og það svo ungur. Ég hef verið mikill Who aðdáandi í 15 ár, en það er fyrst á þessu ári sem ég hef verið mjög spenntur fyrir því sem þeir ERU að gera, ekki aðeins það sem þeir hafa gert í gegnum tíðina. Eftir dauða Keith Moon þótti mér tónlistin dala mikið, bæði plötur þeirra og tónleikar. Hins vegar sá ég fyrir nokkru tónleikana þeirra í Albert Hall (á myndbandi) frá nóvember 2000 og svei mér þá, þeir voru rosalegir. Zak Starkey frábær trommuleikari og hljóðið í allri sveitinni stórkostlegt.
Ég var búinn að setja mér það markmið að sjá þá á þessu ári eða strax á því næsta og var að bíða eftir að þeir tilkynntu tónleika í Bretlandi. Það er hins vegar ómögulegt að vita hvort þeir ætli sér nokkuð að halda tónleika þar, þeir eru jú vissulega skuldbundnir á marga vegu til að klára tónleikana í USA og spurning hvort Who munu nokkuð koma saman eftir það. Ég er a.m.k. ekki sérlega bjartsýnn á það. Það lítur út fyrir Ameríkuför eða það að sjá þá aldrei…
Annars voru tónleikarnir í gærkvöldi í Hollywood Bowl víst magnaðir og Pino Palladino sem fékk það erfiða hlutverk að leika á bassann stóð sig víst frábærlega, án þess þó að reyna að feta í fótspor Entwistles enda er það nánast ógjörningur…
Fyrir þá sem hafa áhuga þá er ýmislegt athyglisvert að finna á vef BBC:
http://news.bbc.co.uk/hi/english/entertainment/music/newsid_2081000/2081490.stmog
http://www.bbc.co.uk/6music/music_news/