Þessi dómur birtist um plötuna “dod qoq pop” í Morgunblaðinu Laugardaginn 11. nóvember, 2006. “dod qoq pop” er fyrsta plata hljómsveitarinnar bob. Dóminn skrifaði Helga Þórey Jónsdóttir.


—————————————–

Laugardaginn 11. nóvember, 2006 - Tónlist

TÓNLIST - Íslenskur geisladiskur
Frumlegt án tilgerðar

Bob - Dodqoqpop stjörnugjöf: 4

Geisladiskur hljómsveitarinnar Bob, nefndur Dodqoqpop. Lög og textar eru eftir Bob. Bob eru þeir Skúli Agnarr sem leikur á bassa, Matthías Arnalds á gítar, Finnur Pind á gítar og Friðrik Helgason á trommur.


Geisladiskur hljómsveitarinnar Bob, nefndur Dodqoqpop. Lög og textar eru eftir Bob. Bob eru þeir Skúli Agnarr sem leikur á bassa, Matthías Arnalds á gítar, Finnur Pind á gítar og Friðrik Helgason á trommur. Auk Bob koma fram á diskinum Gunnar Jónsson, söngur, Spaceman, söngur, Sigtryggur Baldursson, ásláttur, Þórður Þorsteinsson á saxófón, Anna Finnbogadóttir á selló, Elín Pjetursdóttir á flautu og Guðrún Mist Sigfúsdóttir á fiðlu. Umsjón með upptökum í Gróðurhúsinu hafði Sturla Mio Thorisson. Hljóðblandað í Gróðurhúsinu af Mio og Bob. Rass gefur út.

ÞAÐ er alltaf skemmtilegt að fá tækifæri til þess að heyra frumlegar hljómsveitir spila vandaða og vel útsetta tónlist. Bob er svo sannarlega í þeim hópi. Tónlistin þeirra er hvorki hefðbundin né ofhlaðin, hún er merkilega sérstök og dramatísk.

Útsetningarnar eru afar vandaðar. Það er mikið um að vera en samt sem áður tekst að setja það fram á mínímalískan hátt. Gítarhljómurinn á plötunni tengir lögin skemmtilega saman og gefur henni góðan heildarhljóm án þess þó að ég hafi fengið það á tilfinninguna að ég væri alltaf að hlusta á sama lagið. Þennan hljóm er ekki auðvelt að útskýra en hann er þó ekki óþekkt fyrirbæri í íslenskri tónlist. Kannski minnir hann örlítið á neðanjarðartónlist Íslendinga á níunda áratugnum. Þetta er samt ekki beint pönk eða nýbylgja - lögin eru nefnilega skreytt með fallegum strengjaútsetningum og píanótónum og stundum verða þau sálarrík og einkar melódísk.

Það má endalaust telja upp aðra tónlistarmenn eða hljómsveitir sem Bob líkjast. Á Dodqoqpop fannst mér ég heyra áhrif allt frá Kuklinu til Placebo og þaðan yfir í Frank Zappa. Reyndar er tónlist Bob of fjölbreytt til þess að megi líkja henni við nokkurn skapaðan hlut. Þeir eru eins og annað afbrigði af þeim frumleika sem kemur fram hjá virkilega góðum hljómsveitum sem eru ekki hræddar við tilraunastarfsemi. Það er svo merkilegt að mér finnst lögin verða kannski fulldramatísk á köflum, en svo tekst Bob alltaf að brjóta það upp og skapa orku sem sjaldan finnst í tónlist sem þessari.

Það sem mér þótti helst vanta upp á tengist söngnum, mér þótti söngvararnir fínir en oft var eins og laglínurnar væru ekki nægilega sterkar eða að samruni söngs og lags gengi ekki fyllilega upp, þetta gildir þó ekki um öll lögin. Ég var til dæmis mjög hrifin af söngnum í Melody Sheep. Kannski vegna þess að ég er mikill sökker fyrir grípandi melódíum og hressilegum bassalínum. Mér finnst einnig vert að taka það fram að hljóðfæraleikurinn á plötunni er frábær. Það skiptir engu máli hvaða hljóðfæri um er rætt. Framúrskarandi alveg hreint.

Umslag plötunnar er saga í heila grein út af fyrir sig. Það má fletta bæklingnum og skoða þar nafn hljómsveitarinnar og plötunnar á ýmsa vegu. Enda hafa liðsmenn Bob leikið sér vel með grafískar hugmyndir nafns síns (bobdodqoqpop).

Þetta er ekki plata sem síast auðveldlega inn, hún er ekki þess eðlis að hún eigi að skiljast auðveldlega. Ég er ekki viss um að hún eigi eftir að verða vinsælasta platan en hún er ein af þeim frumlegustu og vönduðustu sem ég hef heyrt lengi. Hún er avant garde - án tilgerðar.

Helga Þórey Jónsdótti
Rass