Nýja myndband okkar Morðingjanna (Til hvers?) sem var póstað hér fyrir nokkru þykir ekki birtingarhæft á Skjá Einum. Eftir eftirgrennslan að hálfu Morðingjanna fékk hljómsveitin símtal þess efnis að ákveðið hefði verið að spila myndbandið ekki. Ástæðu þess segja Skjár Einn vera efni myndbandsins, þeim þykir það of klámfengið.
Nú eiga Skjár Einn hrós skilið fyrir að hafa sýnt íslensk tónlistarmyndbönd af miklu kappi í gegnum árin, og margar íslenskar hljómsveitir sem fá ekki einu sinni útvarpsspilun hafa komist undir vænginn hjá Skjá Einum og náð að koma tónlist sinni á framfæri þar.
En nú er ég hissa. Skjár Einn hafa sýnt allskonar myndbönd með hinum og þessum erlendum listamönnum og ég er 100% viss um að ég hef séð “klámfengið” efni þar. Það þarf varla að nefna r&b-artistana sem hrista rassana og brjóstin framan í áhorfendur 24/7 alla daga, allar nætur. Það er fyrir löngu orðið everyday-life fyrir áhorfendur og fólk kippir sér ekki mikið upp við það. En sumir ganga lengra. Eins og t.d. vinur okkar hann 50-Cent, sem sýnir nipplur án þess að skammast sín. Ég held meiraðsegja að ég hafi séð full-frontal á S1. Ef ekki í tónlistarmyndböndum þá allavega í sjónvarpsþáttum. Einn sem ég man eftir er þátturinn “The L-Word” sem var sýndur fyrir um ári síðan, þar sem kynlíf lesbía var sýnt oft á mjög djarfan máta.
Hvað er það þá í þessu myndbandi sem fer fyrir brjóstið á S1? Er það kannski það að þrátt fyrir engar geirvörtur og engin kynfæri þá mætti túlka kynlífið á einhvern hátt ofbeldisfullt? Ef svo er þá ættu þeir að kíkja á þætti á borð við Law & Order: SVU og C.S.I, en þar er gróft ofbeldi grasserandi í hverri viku og öllum sama um það.
Ég viðurkenni það að vissulega er myndbandið grafískt og við vissum að þetta gæti hugsanlega gerst. Engu að síður þótti okkur það ólíklegt. Meira að segja ritskoðuðum við myndbandið sjálfir þegar við klipptum úr því atriði sem okkur fannst vafasamt þrátt fyrir að það félli undir “engin kynfæri”-pólisíuna
Morðingjarnir ætla engu að síður ekki að vera með nein leiðindi út í Skjá Einn, sérstaklega í ljósi þess að fyrsta myndbandið okkar var spilað nokkuð lengi og þökkum við Skjá Einum kærlega fyrir það, en við erum engu að síður vonsviknir…
Og fyrir þá sem sáu aldrei þetta blessaða myndband:
http://www.internet.is/mordingjarnir/til_hvers.mpg