Fjórir voru teknir fyrir vörslu og neyslu fíkniefna á tónleikum bresku þungarokkshljómsveitarinnar Iron Maiden í Egilshöll . Um er að ræða kannabisefni og amfetamín. Um 10.000 gestir sóttu tónleikana og var lögregla með mikinn viðbúnað á staðnum. Að sögn lögreglu gekk bílaumferð greiðlega til og frá tónleikastaðnum.
Mikil stemning var á tónleikunum. Hljómsveitin steig á svið um níuleytið og spilaði af fullum krafti í tvo tíma. Sýndu gömlu kempurnar að þeir höfðu engu gleymt, léku öll sín vinsælustu lög og virtust áhorfendur skemmta sér konunglega.