Sá sorglegi atburður gerðist síðastliðinn mánudag að önnur söngkona Stereolab, Mary Hansen, lést í bílslysi í London.
Eins og kunnugt er spilaði Stereolab hér á Íslandi tvisvar í lok október og voru það síðustu tónleikarnir sem Mary söng og spilaði á, en hljómsveitin hefur síðan þá verið að undirbúa upptökur á nýrri plötu.
Tilkynnt var um andlát Mary úr herbúðum Stereolab í morgun en sögusagnir höfðu farið af stað meðal aðdáenda í gær. Enn hefur hljómsveitin ekki gefið frá sér neina tilkynningu um hvernig samstarfi eftirfarandi meðlima verður háttað, enda var Mary órjúfanlegur hluti af Stereolab í hugum margra.
Það er alveg ljóst að Mary Hansen verður minnst af aðdáendum um allan heim í dag og hvet ég íslenska aðdáendur að minnast hennar með því að spila Stereolab plötu í dag.