Nú var vetrarhátíð í Hinu Húsinu í gær og margar ungar og ferskar
hljómsveitir léku fingrum fram. Ég, því miður, átti strembinn dag
og náði einungis síðar helmingnum af þessu ágæta framtaki hins
hússins.

Já, réttast finnst mér að benda á það að þrátt fyrir að ég hafi
farið á betri tónleika, bæði með betri hljóðmanni, hljóðkerfi,
ljósum og sal þá finnst mér þetta hið besta mál fyrir þann
pening sem ég borgaði (engan, það var ókeypis). Gott að borgin sé
að styrkja svona málefni og mætti alveg vera meira af því.

Mig langaði að nefna tvær hljómsveitir sem voru afburðagóðar
þetta kvöld, þó allar hafi spilað vel og skemmtilega.

Fyrst eru það Coral sem voru aðrir eftir hlé. Þessi hljómsveit
er alveg stórkostleg og eru þeir tvímælalaust ein bjartasta von
íslands. Allir drengirnir eru á táningsaldri (“in there teens”)
en tónlist, hljóðfæraleikur & “þéttleiki” sveitarinnar er
ótrúlegt að heyra, og sjá því ekki vantar uppá sviðsframkomuna
heldur. Þetta er mjög þroskað band en eiga samt eftir að
þroskast mun meira og verður gaman að fylgjast með því.

Hin sveitin ber nafnið Danni & Dixie-dvergarnir þetta er nú
meiru snillingarnir. Svo við höfuð það á hreinu þá eru Danni og
Dixie-dvergarnir Jazz hljómsveit. Þrátt fyrir að ég sé ekki
mikill Jazz maður þá er Jazz alveg ótrúlegur þegar hann er svona
“lifandi” fyrir framan mann. Ekki slá Danni og félagar slöku við
þegar kemur að hljóðfæraleik þar sem þeir, allir, virðast hafa
spilað á hljóðfærin í fleiri ár en þeir hafa verið til. Til að
taka samlíkingu þá eru Danni & Dixie-dvergarnir á sama/svipuðum
aldri og búdrýgindismenn en ég held að það væri nú varla
samanburður að bera þá saman hvað varðar tónlist þótt
búdrýgindamenn séu alls ekki það slæmir (það þarf nú að kunna
sitt hvað til að vinna músíktilraunir). Talandi um
músíktilraunirnar þá skilst mér að Danni & Co. séu einmitt á leið
þangað og mæli ég með að kíkja á þá og gefa þeim nokkur stig.