Ég hef lengi ætlað mér að skrifa hérna grein um þessa hljómsveit en aldrei komið mér til verks…þar til nú.
<b>Meðlimirnir</b>
Bandið samanstendur í raun af þremur einstaklingum, en þeir eru:
Michael Anthony - fæddur 20. júní 1954, spilar á bassa,
Alexander Arthur Van Halen - fæddur 8. maí 1953, slær á trommur, og
Edward Lodewjik Van Halen - fæddur 26. janúar 1955, spilar á gítar (og alls ekki illa!)
<b>Sagan</b>
Michael Anthony ætlaði sér að ganga í fótspor föður síns og fór að læra á trompet 1961. Bræðurnir Eddie og Alex byrjuðu hinsvegar ekki fyrr en um 1965 og ári eftir var Eddie byrjaður að læra á trommur meðan Alex sótti gítartíma. Stuttu seinna skiptu þeir um hljóðfæri.
Árið 1972 er hljómsveitin Mammoth stofnuð, þar sem Eddie singur og spilar á gítar, Alex slær á trommur og Mark Stone spilar á bassa. Árið eftir fer David Lee Roth í hæfnispróf fyrir Mammoth og er tekinn inn í hljómsveitina sem söngvari. Eftir það spilar Mammoth (sem seinna varð Van Halen) ALLSTAÐAR, frá bak-garðs partíum og brúðkaupum til blautbolakeppna. 1974 er Mark Stone rekinn úr hljómsveitinni og Michael Anthony tekur boði um inngöngu eftir strangt hæfnispróf. Sveitin breytir nú nafninu sínu í Van Halen þar sem nafnið Mammoth var í notkun af annarri hljómsveit.
Halda þeir nú áfram að spila á ýmsum stöðum þar til í maí 1976 að þeir eru “uppgötvaðir” af Gene Simmons en varð ekkert úr því þar sem ekki var hægt að nota þá “commercially”. Ári seinna er Van Halen “endur-uppgötvaðir” af tveim Warner Bros. yfirmönnum og gefnir samning á staðnum, og samþykktu drengirnir samninginn innan sólarhrings. 1978 gefa þeir svo loksins út fyrstu plötu sína, Van Halen sem hefur lög eins og “You really got me now” og “Eruption” að prýða. Sama ár hita þeir upp fyrir Journey og Black Sabbath meðal þess að spila á klúbbum og fleiru.
Árin eftir kom hver platan á fætur annarri. Van Halen II árið 1979, Women and Children First árið 1980, Fair Warning með hið snilldarlag “Unchained” árið 1981 og svo Diver Down árið 1982. Þess má líka til gamans geta að á gamlárskvöld 1980 bað Eddie Valerie Bertinelli með $8.000 demantshring og giftust þau snemma næsta ár. Ég býst svo við að gestirnir hafi notið fimm-bragðtegunda tertunnar. :D
Svo gerðist það að árið 1984 kom hin stórfína plata, 1984, út. Geymdi hún lög eins og “1984”, “Jump” og “Hot for Teacher”. Árið eftir er platan staðfest fimmföld platinum en þær fréttir að David Lee Roth sé hættur berast einnig. Ed hringir þá í Sammy Hagar og býður honum að ganga til liðs við þá og eftir að hafa spilað nokkur lög saman gengur hann í hljómsveitina. 1986 kemur út fyrsta platan með Sammy Hagar sem nefnist 5150 og fer hún beint á toppinn. Tveimur árum seinna kemur svo út platan OU812 og fer hún einnig á toppinn.
1991 kemur út platan For Unlawful Carnal Knowledge en er það ekki það eina sem gerist það ár. Eddie og kona hans, Valerie bjóða son sinn Wolfgang William (skírðan eftir Wolfgang Amadeus Mozart) velkominn í heiminn.
1992 átti sér síðan stað fáránlegur atburður. Lögregla gerði upptæka Van Halen skyrtu sem ungur maður var í fyrir utan veitingastað einn. Var maðurinn tekinn fyrir klúrinn klæðaburð og átti að sitja í heila þrjátíu daga í steininum og borga allt að $100 sekt. Þegar maðurinn kom til réttar, borgaði Van Halen sekt hans að fullu. Ári eftir það kom síðan platan Live: Right Here, Right Now og tveimur árum seinna kom út síðasta plata Sammy Hagar, Balance. Þess má geta að í millitíðinni hætti Eddie að drekka fyrir fullt og allt. Árið 1996 er það komið á hreint að Sammy Hagar hafi yfirgefið Van Halen og út kemur Best Of Volume 1. 1998 kemur svo út platan Van Halen III þar sem Gary Cherone singur og búast menn við að hér sé á ferðinni framtíðarsöngvari hljómsveitarinnar. Aftur á móti skiljast leiðir og Gary Cherone yfirgefur hljómsveitina árið eftir. Platan 1984 fær verðlaunin Diamond sama ár, sem er veitt þegar selst hafa tíu milljón eintök af plötu.
Í fyrra barðist Edward Van Halen við krabbamein og að lokum hafði hann sigur úr býtum. Persónulega er ég ekki viss hvernig framtíðin hjá þessari hljómsveit lítur út en þó vona ég það besta. Eitt finnst mér samt skrítið, og er það hversu fáir vita eitthvað um Van Halen. Kannski er þetta bara svona með fólkið í kringum mig en næstum enginn virðist hafa heyrt í þeim. Að sjálfsögðu kannast lang-flestir við nafnið en það er yfirleitt svo langt sem það nær. Auk þess hef ég reynt að leita að grein um þessa hljómsveit á Huga en ekki fundið eina einustu!
Hvað sem öðru líður, þá er þessi hljómsveit að mínu mati með þeim bestu á sínu sviði og held ég persónulega mjög mikið upp á þá.
Allar heimildir fengnar af <a href=“www.van-halen.com”>www.Van-Halen.com</a>
Takk fyrir,
gerbill