Þegar ég var svona 13-14 ára var pabbi minn einhverntíman að reyna að fræða mig um tónlist og benti mér á Deep Purple. Hann tók fram plötuna Machine Head og setti á fyrsta lagið sem heitir Highway Star. Þetta spilaði hann og reyndi að koma því inn í hausinn á mér hversu mikil snilld þetta væri.
…Og ég sagði auðvitað “Jájá” og fór inn í herbergi að hlusta á Scatman…

En nú, þónokkrum árum seinna vil ég deila uppgötvun minni með ykkur. Og uppgötvun mín er sú að þetta lag, sem og flest Deep Purple lög, er alveg hreint yndislegt!

Versin eru grípandi og skemmtileg, viðlagið er einnig virkilega skemmtilegt áhlustunar en það sem ég met sérstaklega við þetta lag eru sólóin. Þarna voru menn á ferðinni sem virkilega kunnu á hljóðfærin sín.

Fyrra sólóið er svona ca. 1:30 mínútna orgelsóló sem virkilega gefur manni gæsahúð og býr mann undir hápunktinn í laginu sem er gítarsólóið.
Blackmore fer fagmannlegum höndum um gítarhálsinn og framleiðir þessa frábæru sólómelódíu sem býr svo sannarlega til gæsahúð. Ég er ekki mikið fyrir að fólk sé að halda fram að: “Almennt er talið að…” en faðir minn sagði mér að þetta sóló væri oftar en ekki talið eitt það allra besta í heiminum. Og þar sem hann var á þeim tíma tónlistargagnrýnandi DV, auk þess að hafa verið dagskrárgerðarmaður Rásar 2 og ótrúlega fróður um tónlist trúi ég honum.

Að sjálfsögðu er það smekksatriði hvað er gott og hvað ekki en þegar hugsað er um melódíuna sjálfa, hvernig hún passar við lagið sjálft og síðast en ekki síst framsetninguna á sólóinu hlýtur að vera hægt að komast að þeirri niðurstöðu að þetta sé ansi gott sóló.
Alveg eins og hægt er að komast að þeirri niðurstöðu að Mona Lisa sé ansi gott málverk.

En allavega, þið sem hafið hlustað á þetta lag, segið mér frá hvað ykkur finnst og þið sem ekki hafið hlustað á þetta lag, hlustið á það ef þið viljið, annars ætla ég ekki að segja ykkur hvað þið eigið að gera…

Zedlic