Umræðan hér fer oft í að ræða FM-(ó)menninguna sem þrífst í útvarpstækjum landsmanna. Ágæt grein eftir Obsidian birtist hér um daginn undir yfirskriftinni Hvað er eiginlega að???!!!, og fjallaði um þetta mál. Umræðan sem á eftir kom leiddist hins vegar út í allt aðra sálma eins og gerist iðulega hérna, en það er allt önnur saga. En það sem stingur mig svolítið í umræðunni um íslenska tónlist (eða íslenska FM sveitaballatónlist, svo að ég skilgreini þetta betur) er að öll sú tónlist er sett undir sama hatt. Málið er að tónlistin er jafn mismunandi og böndin eru mörg. Þetta snýst ekki um átta eða tíu sveitaballabönd sem öll spila sömu tónlistina, þetta snýst um átta eða tíu bönd sem spila jú öll á sveitaböllum, en þó mismunandi tónlist. Það vitið þið sem hafið farið á sveitaböll. Mér dettur ekki í hug að setja Buttercup og Írafár undir sama hatt, hvað þá Sálina og Greifana, þetta er allt óskild tónlist. Það eina sem þessar hljómsveitir eiga sameiginlegt er að þau fylla samkomuhús um allt land helgi eftir helgi. Tónlistin er mjög misjöfn að gæðum og innihaldi, og því hæpið að drulla yfir þau öll í einu. Mitt mat á böndin er þetta;
Sálin hans Jóns míns - vandað popp(sálar)-band með frábærar lagasmíðar og þokkalegar textasmíðar (sem hafa lagast mikið með árunum), eina bandið með brass sem gefur því meiri vídd og er alls ekki hægt að líkja við hin böndin. Sveitin hefur líka starfað síðan 1988 og ætti því að vera farin að kunna þetta.
Írafár - fyrst og fremst ferskt og vandað popp í anda Todmobile (að mínu mati). Textarnir ekki burðugir en lögin vel samin og útsett, með hörkugóða söngkonu sem lætur útlitið ekki skemma fyrir bandinu.
Í svörtum fötum - ruddist fram á sjónarsviðið aðallega sem hresst ball-band og á landsbyggðina vegna þess. Með hýperaktívan söngvara sem hrífur alla með sér á böllum, ber að ofan. Lög og textar slakir en það er ekki allt. Ef eitthvað band er dæmigert sveitaballaband er það þetta.
Buttercup - sveitaballa-rokk ætti þeirra tónlist að kallast, ekki ólíkt SSSól. Lélegar lagasmíðar og textar, en sveitin hefur mest byggt á töffaraskap karlsöngvarans. Ægilegt drama í kringum kvensöngvaraskipti hefur nánast gert útaf við bandið sem var á toppnum í fyrrasumar en hefur verið á hraðri niðurleið síðan.
Sóldögg - drungapopp, vandað og þokkalegir textar inn á milli en of latir til að verða eitt af toppböndunum. Hefur fyrir vikið alltaf verið í annarri deildinni og verið þekktast fyrir rútusukk.
Land og synir - Band sem spilaði létt-popp og byrjaði á að hrífa ungdóminn með á sveitaböllum, gerðu síðan metnaðarfullt og vandað alltöðruvísipopp en hafa látið sig hverfa á vit meikdrauma í Ameríku, sem allir vita að er vonlaust. Þeirra tónlist hefur þróast í Blink 182 línuna, sem enginn nennir lengur að hlusta á.
Á móti sól - Frekar illa spilandi popp/ska-band, einhæfar lagasmíðar og flokkast kannski undir þessa týpisku sveitaballaskilgreiningu fyrir tónlistina sína. Á líklega ásamt Buttercup, verstu textana. Tilkoma nýs söngvara fyrir tveimur árum lyfti þó bandinu á æðra plan.
Greifarnir - Það er kannski ósanngjarnt að telja þá með hérna þar sem þeir eru hættir en þeir áttu ágætt kombakk fyrir nokkrum árum en þekktu ekki mörkin og lognuðust útaf í dapurlegum dauðateygjum, spilandi sama gleðipoppið og fimmtán árum áður. Grípandi lagasmíðar (reyndar ekki ýkja góðar) en hörmulegir textar.
Auðvitað er markaðurinn fullur af neðri deildum en þetta er sveitaballapoppið í hnotskurn og þar kraumar allt af allskonar tónlist. Þó þessi úttekt segi kannski minnst um tegundir tónlistarinnar sem hvert og eitt band spilar, sjá menn vonandi að það er ósanngjarnt að kalla þetta allt sömu tónlistina.