Plötuútgáfan Dischord er goðsagnakennd útgáfa. Frá henni hafa hafa runnið afurðir frá yfir 40 hljómsveitum og vel á annað hundrað bönd til viðbótar hafa notið velvildar hennar á einn eða annan hátt, oftast í formi dreifingar. Dischord var stofnað á hugsjóninni og hefur ávalt verið rekið með það í huga að koma hljómsveitum frá Washington DC á framfæri.
Nú, 22 árum eftir að fyrsta útgáfan leit dagsins ljós hafa Dischord gefið út eigulegan safndisk, með öllum þeim böndum sem þeir hafa gefið út fá upphafi. Því er vert að líta yfir sögu Dischord.
The Teen Idles ákváðu að leggja upp laupana síðla sumars 1980. Það eina sem átti eftir að gera var að gera upp sjóði sveitarinnar. Allir peningar sem komuð höfðu inn fyrir þá 35 tónleika sem þeir höfðu spilað á voru geymdir í vindlakassa í herbergi Ian MacKaye, bassaleikara. Í staðinn fyrir að skipta þeim $600 á milli liðsmanna var ákveðið að gefa út plötu.
Það var ljóst frá upphafi að engin útgáfa hefði áhuga á að gefa út Teen Idles plötu, sérstaklega þar sem þeir höfðu þegar hætt sem hljómsveit. Því var ákveðið að þeir myndu gefa hana sjálfir út. Ian segir frá: “Við snérum okkur til vinar okkar Skip Groff sem rak plötubúðina Yesterday and Today. Hann hafði gefið út þó nokkar plötur í smáu upplagi á eigin útgáfu, Limp Records, og gat útskýrt fyrir okkur hvernig ferlið virkaði. Við ákváðum nafn á útgáfuna, hönnuðum umslag og sendum kassetturnar í framleiðslu. Loks, í desember 1980 kom “Minor Disturbance” ep platan með Teen Idles út. Þetta var Dischord Records #1”.
Á þeim tíma sem það tók að koma plötunni saman hafði mikið verið á seiði í senunni í DC. Jeff Nelson og Ian stofnuðu nýtt band, Minor Threat, og Ian færði sig af bassanum og yfir í sönginn. Henry, rótari Teen Idles stofnaði S.O.A. Nathan Strejcek, söngvari Teen Idles var að vinna í nýju bandi sem varð að The Youth Brigade.
Það var ákveðið að ef þeir næðu að selja nóg af “Minor Disturbance” til að fá eitthvað af peningunum til baka að þá yrðu þeir notaðir til að gefa út efni með þeim hljómsveitum sem voru grasserandi í senunni. Ian var mjög hrifinn af því hvernig Dangerhouse Records, sem höfðu unnið ötullega í að gefa út efni með pönksveitum frá Los Angeles, gerðu hlutina og langaði að gera eitthvað svipað með Dischord.
Henry hafði mikinn áhuga á að gefa út S.O.A plötu og það endaði með að hann borgaði fyrir hana sjálfur, “No Policy” smáskífa S.O.A (Dischord #2) kom út snemma 1981. Þegar aurarnir fyrir þessar tvær útgáfur fóru að skila sér gátu þeir gefið út smáskífur með Minor Threat, Government Issue og Youth Brigade fyrir lok árs 1981.
Í október 1981 fluttu þeir sig í lítið hús í Arlington, Virginíu. Þeir skírðu það “Dischord House” og flutti starfsemi útgáfunnar inn í lítið herbergi inn af eldhúsinu. Þeir höfðu eiginlega ekki hugmynd um hversu lengi þeir myndu endast þarna og ákváðu því að halda gamla póstfanginu á Beecher Street þar sem foreldrar Ian bjuggu, og búa enn. Þetta póstfang Dischord hefur aldrei breyst.
Nathan, sem hafði unnið að Dischord með þeim Ian og Jeff, flutti ekki inn og varð smám saman minni partur af starfseminni. Allir sem bjuggu í Dischord House voru í böndum . Kjallarinn varð að æfingaplássi sem var stanslaust í notkun og þar sem að þetta var fyrsta “klúbbhúsið” í senunni á svæðinu varð þetta vinsælt “hang-out”. Fólk kom og fór allan sólarhringinn og lenti oft í því að setja saman plötuumslög og bretta saman textablöð.
Í janúar 1982 var fyrsta safnplatan, tólftomman “Flex Your Head” (Dischord #7) sem á voru 32 lög með ellefu böndum, gefin út. Á þessum tíma voru svo mörg bönd að spretta upp að það var engin leið að hafa auga með þeim öllum. Um mitt á 1982 tókst þeim að koma út plötum með Faith, Void, Scream og Marginal Man ásamt því að gefa út “Out Of Step 12” með Minor Threat (Dischord #10), en voru um leið komnir í fjárhagserfiðleika. Ian var í þremur vinnum ásamt því að reka Dischord og syngja í Minor Threat en tókst samt ekki að láta enda ná saman. Vandamálið var að fá dreifingarfyrirtækin til að borga á skikkanlegum tíma ásamt því að Dischord stóð ekki til boða að fá plötur pressaðar í kredit. Þeir þurftu alltaf að borga fyrir plöturnar við afhendingu, en dreifingarfyrirtækin höfðu 60-90 daga til að borga þeim (sem oftast endaði í 5-6 mánuðum). Þeir áttu í vanda með að ákveða hvort að þeir ættu að endurútgefa uppseldar plötur eða að gefa nýtt efni út. En þá komust þeir fyrst í samband við John Loder.
Fyrirtæki hans, Southern Records, hafði gefið út plötur bresku sveitarinnar Crass, en Crass var afar mikilvæg pönksveit, og voru Dischordmenn því uppveðraðir yfir áhuga Loders að gefa út “Out of Step” tólftommu Minor Threat í Evrópu. Hann gat fengið plötur framleiddar í kredit og út af því að það var svo miklu ódýrara að framleiða í Evrópu báðu þeir hann um aðstoð við að dreifa plötunni í Bandaríkjunum líka. Eftirspurn eftir plötunni var miklu meiri en þeir höfðu átt von á og þeir áttu enga peninga til að framleiða fleiri eintök. John Loder ákvað að láta reyna á þetta, og var þetta upphafið á samstarfi sem hefur enst til dagsins í dag.
Ofan á fjárhagserfiðleikana sem dreifingarfyrirtækin höfðu valdið að þá höfðu flest hinna upprunarlegu Dischord banda annaðhvort hætt eða yfirgefið útgáfunna árið 1984. Sköpunargleðin var lítil, ásamt því að Dischord hóf að fjarlægast pönksenuna í DC, sem varð orðin ofbeldisfyllri og samstöðuminni. Dischord varð því fljótt að senu innan senu. Þeir áttu erfitt með að fylgjast með öllu sem var að gerast í Washington, en þóttust vissir um að ennþá voru athyglisverð bönd að spretta upp. 1985 hófu ný bönd að skjóta upp kollinum: Rites of Spring, Lunchmeat (sem seinna urðu að Soulside), Kingface, Beefeater, Mission Impossible, Fire Party, Dag Nasty og nýja band Ian, Embrace. Þetta ár snéru Gray Matter einnig aftur. Pólitíska hreyfingin Positive Force DC var stofnuð og byrjaði að skipuleggja góðgerðarsamkomur og mótmæli. Á þessum tíma voru margir tónlistarmenn aktívir í pólitískum hreyfingum og leiddi þetta til samvinnu sem ennþá stendur til dagsins í dag. Margar af hljómsveitum þeirra komu fram á safnplötunni “The State Of The Union” sem Positive Force gaf út.
Seinni hluta níunda áratugarins voru fleiri merkileg bönd stofnuð, til að mynda Shudder To Think, Three, Jawbox, One Last Wish, Lungfish, Nation Of Ulysses, Holy Rollers, Fidelity Jones, Ignition, The High Back Chairs, Severin og Fugazi. Aldrei áður hafði verið eins mikið að gera hjá Dischord og neyddi það þá drengi að flytja hluta starfseminnar út úr Dischord House. Þeir stofnuðu annað fyrirtæki, Dischord Direct, og sá það um að dreifa hljómsveitum og öðrum útgáfum, ásamt efni frá Dischord, til plötubúða og stærri dreifingaraðila.
Upp úr 1990 varð sprenging í áhuga á óháðri og neðanjarðartónlist. Þetta var að miklum hluta velgengni “Nevermind” með Nirvana að þakka, en hún var gefin út haustið 1991. Fugazi, hljómsveitin sem Ian hafði stofnað með Brendan Canty og Guy Picciotto (úr Rites of Spring) og Joe Lally, var ein sú stærsta í neðanjarðarsenunni, og tók að laða að sér áhuga stóru plötufyrirtækjanna. Ákvörðun hljómsveitarinnar að vera um kyrrt hjá Dischord leiddi til þess að þeir stóru buðust til að kaupa Dischord eins og það legði sig. En aldrei kom til greina að selja, Fugazimenn skildu verðmæti einkaframtaksins, og út af því hversu vel Dischord hafði tekist að koma ár sinni fyrir bát stóðu þeir ekki frammi fyrir sömu afarkostum og margar aðrar óháðar útgáfur og bönd á þessum tíma.
En þetta leiddi til þess að umfang neðanjarðarmarkaðarins breyttist, áherslurnar voru nú meira á peningum en tónlistinni, og mikið af þekktari böndunum voru boðnar fúlgur hjá risunum sem þeir ekki gátu hafnað. Tvö Dischord bönd fóru þessa leið, Jawbox og Shudder To Think.
Tilkoma meginstraumsins inn í það sem eitt sinn var sagt vera neðanjarðar hafði gríðarleg áhrif á Dischord. Þeir voru skyndilega að selja mikið meira af plötum en áður, og svo aftur mun minna þegar áhugi beindist á næsta tískufyrirbrigði. Dischord reyndu að kippa sér ekkert of mikið upp við athyglina og beindu þess í stað sjónum sínum áfram á böndin sem fyrir voru hjá útgáfunni. Á þessum tíma komu út plötur með Slant 6, Hoover, Circus Lupus, Trusty, Bluetip, Branch Manager, The Crownhate Ruin, Smart Went Crazy og Make-up.
Síðustu 5-6 árin hefur hægst töluvert á útgáfu frá Dischord. Aðeins þrjú bönd eru ennþá samningsbundin Dischord (athugið að Dischord voru ekki vanir að gera samninga við hljómsveitir, þetta byggðist meira á trausti og virðingu), Fugazi, Lungfish og Bluetip. Út af því hversu útgáfan er háð því hvað er að gerast hverju sinni á Washinton DC svæðinu, hljóta að koma hægðir og lægðir í músíklífinu. Dischord kjósa því að sigla beint í gegnum þessa tíma og halda einbeitingunni. Þeir skilja það að það verður alltaf mismikið að gerast. Á meðan hafa þeir farið að sísla meira í dreifingarmálum fyrir aðrar DC útgáfur, aðallega Slowdime, DeSoto, Simple Machines, Teenbeat, Superbad og Resin.
Fjölmargir hafa unnið hjá Dischord í gegnum árin, þó aldrei fleiri en 5-6 í einu. Margir af þeim eru í hljómsveitum sjálfir og eiga jafnvel eigin útgáfur. Í byrjun unnu flestir í sjálfboðavinnu þar sem það voru ekki neinir peningar til, en fljótlega upp úr 1990 tókst þeim ekki bara að getað byrjað að borga öllum, heldur gefa öllum heilbrigðistryggingu (sem er stórmál í USA). Ian hefur alltaf litið á þetta sem stærsta sigurinn. Flest fyrirtæki einblína á að ná gróða (eða helst ekki tapa gróða), en Dischord hefur tekist að sjá hlutina frá öðrum hliðum og um leið séð að það þarf ekki alltaf að gera hlutina eins og risarnir gera það. Það að þeir geti stutt rausnarlega við bakið á starfsfólki sínu, um leið og þeir borgi hljómsveitunum sinn skerf sýnir að sú leið er fær, ef menn bara kjósa að fara hana.
Ian finnst mikilvægt að þó fyrirtækið sé komið á þrítugsaldurinn sé ekki litið á það í sögulegum skilningi. Honum finnst þeir enn hafa nokkuð meira til málanna að leggja, og halda áfram að leyfa heiminum að heyra bestu rokkmúsíkina frá Washington DC.
Gylfi Blöndal gylfib@hotmail.com