Hljómsveitin Pixies var stofnuð í Boston í Bandaríkjunum árið 1986 af þeim Charles Thompson og Joey Santiago, en þeir voru herbergisfélagar í skóla þar. Þeir auglýstu eftir bassaleikara í tónlistarblaði og báðu sérstaklega eftir einhverjum sem fílaði hljómsveitr eins og “Husker Dü” og “Peter, Paul & Mary” og það var aðeins einn kvenmaður sem svaraði auglýsingunni og hét hún Kim Deal, sem upp frá því plokkaði bassa í Pixies en hafði áður verið í hljómsveitinni Breeders með systur sinni Kelly. Hún mældi síðan með trommaranum David Lovering, sem gekk síðan til liðs við þau. Thompson valdi sér sviðsnafnið Black Francis og kölluðu sig Pixies eftir að Santiago hafði valið orð af handahófi í orðabók.
Haustið ‘86 hituðu þau upp fyrir Boston-sveitina Throwing Muses og á einum af þeim tónleikum heyrði útgefandi í þeim og vildi ólmur fá að taka eitthvað upp með þeim og í mars ’87 tóku þau upp 18 lög á 3 dögum og það demo var sent til ýmissa útgáfufyrirtækja og hið breska 4AD Records gerði samning við þau og gaf út 8 af lögunum á Demóinu út sem EP-plötuna “Come On Pilgrim”, sem kom út 1987.
Þau tóku síðan upp fyrstu breiðskífuna stuttu síðar og hún var pródúeruð af Steve Albini, sem gaf hljómsveitinni hrárri hljóm en áður. Platan “Surfer Rosa” kom út vorið 1988 og fékk frábærar viðtökur gagnrýnenda og sló í gegn á bandarískum háskólaútvarpsstöðum og komst á almenna vinsældalista í Bretlandi. Þau voru búinn að skapa sér nafn og gerðu samning við Elektra Records. Undir lok 1988 fóru þau aftur í stúdíó með breska pródúsernum Gil Norton til að taka upp sína aðra breiðskífu. Hún kom síðan út vorið 1989 og bar heitið “Doolittle”, sem hljómaði “hreinni” en “Surfer Rosa” og fékk vægast sagt frábærar viðtökur bæði gagnrýnenda og almennings. Lög eins og “Monkey Gone To Heaven” og “Here Comes Your Man” komust á inná Topp10 rokklista í Bandaríkjunum og platan fór í 98.sæti á USA-listanum en alla leið í það áttunda í UK. Hljómsveitin var ávallt mun vinsælli í Bretlandi en í Bandaríkjunum, ekki síst fyrir hið fræga “Sex and Death” tónleikaferðalag um Bretland. Undir lok ‘89 höfðu hljómsveitarmeðlimir orðnir þreyttir hvor á öðrum og ákváðu að taka sér pásu fyrri hluta ársins 1990.
Á meðan pásunni stóð fór Black Francis á stuttan sólótúr og Kim Deal stofnaði hljómsveit með Tanya Donnelly úr Throwing Muses og Josephine Wiggs úr Perfect Disaster og nefndi hana eftir æskuhljómsveit sinni, The Breeders. Breeders tóku upp plötuna “Pod” með Steve Albini og kom hún út hjá 4AD sumarið ’90. Stuttu síðar komu Pixies aftur saman til að taka upp sína þriðju breiðskífu. Hin surf-rokkaða “Bossanova” kom út haustið 1990 og innihélt ekkert lag eftir Kim Deal, ólíkt “Surfer Rosa” og “Doolittle”. “Bossanova” var tekið ágætlega af gagnrýnendum en varð gríðarlega vinsæl í háskólum með hitturunum “Velouria” og “Dig For Fire”. Platan jók vinsældir þeirra í Bretlandi og fór í 3.sæti breiðskífulistans. Á túrnum sem á eftir fylgdi jók spenna innan bandsins og þá sérstaklega á milli Francis og Deal, sem varð til þess að þau aflýstu Ameríkutúr sínum.
Vorið 1991 tóku þau upp sína fjórðu breiðskífu og fengu þau hljómborðsleikarann Eric Drew Feldman til þess að spila með þeim í stúdíóinu og þau fóru aftur að spila meira hávaðarokk, þau sögðust vera undir áhrifum frá Ozzy Osbourne, sem var að taka upp í sama stúdíói. Platan “Trompe Le Monde” kom út haustið ‘91 og hljómsveitin fór í heimsreisu, spiluðu á risaleikvöngum í Evrópu og litlum íþróttahúsum í Bandaríkjunum. Vorið ’92 hituðu þau upp fyrir U2 á fyrsta hluta “Zoo TV” tónleikaferðarinnar og reyndust það vera síðustu tónleikar þeirra í Bandaríkjunum. Eftir Zoo TV túrinn fóru þau aftur í pásu, Kim Deal fór að vinna með Breeders, sem gáfu út EP-plötuna “Safari” seinna um vorið og Black Francis fór að vinna að sólóplötu. Þegar Francis var að kynna sólóplötu sína í útvarpsviðtali á BBC í Bretlandi, tilkynnti hann að Pixies væru dauð, án þess að hafa talað neitt við hina meðlimi hljómsveitarinnar, en síðar um daginn faxaði hann fréttatilkynninguna til þeirra. Black Francis breytti nafni sínu sem sólóartist í Frank Black. Breeders gáfu út plötuna “Last Splash” haustið '93 og seldist í bílförmum, einkum vegna smellsins “Cannonball” (sem var fyrsta lagið sem X-ið sáluga spilaði). Joey Santiago er núna að vinna með Frank Black að sólóplötu hins síðarnefnda. Hvar er David Lovering?