Núna er fyrsta plata At The Drive-In afsprengisins Sparta komin út. Hún heitir Wiretrap Scars og er ég búinn að hafa hann soldið í græjunum síðustu daga. Strax við fyrstu hlustun heyrist að þetta sé ekki alveg í sama gæðaflokki og At The Drive-In, enda kannski ekki við því að búast.
Platan byrjar vel á lögum eins og “Cut Your Ribbon” og “Mye”, en hið síðarnefnda kom einmitt út á EP-plötunni “Austere” fyrr í ár og einnig eru tvö önnur lög af þessari EP-plötu líka á þessari plötu. Sem aðdáandi At The Drive-In er ég ekki enn orðinn nógu sáttur við þessa plötu og verð það líklega aldrei. Ekki misskilja mig, þessi plata á fína spretti, en er samt engu að síður vonbrigði. Við hlustun virðist ekki hafa verið sett jafn mikil sál í tónlistina eins og var einkennandi hjá ATDI og lagasmíðarnar missa oft marks. Það er eins og þeir hafi flýtt sér of mikið þetta nálgast á köflum ógurlega háskólarokkslegt, sem er ekki nógu góð þróun hjá þessum fyrrverandi(?) snillingum.
Um miðbik plötunnar dettur hún í lægð sem hún nær aldrei fyllilega að ná sér uppúr, þó svo að síðasta lagið “Assemble The Empire” sé með betri lögum plötunnar kemur það bara of seint. En þetta er bara mín skoðun og ef að þú fílaðir ATDI þá máttu alveg tékka á þessu, bara ekki gera of miklar væntingar. Eins og áður sagði, fínir sprettir á köflum, en það nægir ekki til þess að gera góða plötu, kannski í mesta lagi ágæta…
Sparta - Wiretrap Scars: **½/****
Ég bind mun meiri vonir við The Mars Volta, sem er hinn helmingurinn af ATDI, þau gáfu út EP-plötuna “Tremulant” fyrr á þessu ári og er hún hreint út sagt stórkostleg og jafnar alveg ATDI í gæðum og lagasmíð.