Iron Maiden - Part III Í lok “7th tour of a 7th tour” ferðalagsins ákvað gítarsnillingurinn Adrian Smith að yfirgefa járnfrúna og þar með brjóta upp klassíska lineup-ið. Þeir byrjuðu að leita að nýjum gítarleikara og fundu mann að nafni Jannick Gers (sem lítur nákvæmlega eins út og David St. Hubbins í Spinal Tap!) og héldu enn á ný í hljóðver til að taka upp sína áttundu stúdíóplötu.
Árið 1990 kom svo gripurinn út og bar hann heitið “No Prayer for the Dying” og fór beint í efsta sætið á Bretlandi. Á þessari plötu er líka að finna fyrsta og eina #1 hittara Maiden í Bretlandi, það var lagið “Bring Your Daughter To The Slaughter”, sem var einnig fyrsta lagið sem Dickinson samdi alveg sjálfur fyrir Maiden. En þetta var líklega lélegasta plata þeirra frá upphafi. Aðeins eitt annað lag vakti einhverja athygli og það var lagið “Holy Smoke”, en restin var hreint út sagt léleg. En þeim var að sjálfsögðu skítsama um hvað fólki fannst, héldu stuttan túr og fóru síðan aftur í stúdíó.
Útkoman úr þeim upptökum var öllu betri, platan hét “Fear of the Dark”, kom út 1992 og er hinn fínasti gripur (a.m.k. miðað við No Prayer…), en þó ekkert miðað við það sem klassíska lineupið gerði. Hún fór einnig í fyrsta sæti í UK og lagið “Be Quick or be Dead” varð mjög vinsælt, enda frábær rokkari þar á ferð. Mörg mjög góð lög voru á þessari plötu eins og “Judas Be My Guide”(sem er mitt uppáhald af þessari), “Afraid To Shoot Strangers”, “Wasting Love” og titillagið, sem reyndar er miklu betra í live útgáfunni. Fear of the Dark túrinn gaf af sér þrjár tónleikaplötur; “A Real Live One”, “A Real Dead One” og “Live At Donington”, sem var líka gefin út á video, sem er skyldueign fyrir alla sem telja sig Maiden-aðdáendur. Þessi túr kom meðal annars við í Laugardalshöllinni hér á Íslandi '92(því miður hafði ég hvorki aldur né áhuga á tónlist á þeim tíma, 11 ára). Í lok túrsins bárust þær sorgarfréttir að metalbarkinn Bruce Dickinson ætlaði að yfirgefa bandið til þess að einbeita sér að sólóferli.
Bandið réð unga fyllibyttu að nafni Blayze Bailey til að fylla í skarð hans og voru margir ósáttir við það. Bruce Dickinson átti reyndar góðan sólóferil, en það verður ekkert talað um það hér.
Fyrsta plata Baileys með bandinu kom út árið 1995 og hét hún “The X Factor”. Mér fannst sú plata bara ágæt, þó svo að Dickinson hafi verið mun betri söngvari en Bailey. Hún var ekkert meistaraverk en ásættanleg engu að síður. Lög eins og “Sign of the Cross”, “Man on the Edge” og “The Edge of Darkness” standa uppúr á þessari meðalplötu.
Næsta plata þeirra kom út árið 1998 og var hún nefnd “Virtual XI” og er það lélegasta plata Maiden ásamt “No Prayer…”. Þessi plata var tómt rugl. Murray tók ekki þátt í túrnum sem á eftir fylgdi. Aðdáendur þeirra voru orðnir þreyttir á þessu öllu saman og vildu Bailey í burtu.
Um haustið 1999 var þeim við ósk sinni þegar bæði Bruce Dickinson og Adrian Smith tilkynntu endurkomu sína í bandið. Í kjölfarið fylgdi nokkurs konar resurrection-túr og var uppselt kvöld eftir kvöld, nokkuð sem hafði ekki gerst í fimm ár. Bandið hélt í stúdíó með klassíska lineup-ið + Jannick Gers (3 gítarleikarar) og tóku upp nýja plötu. Hún kom síðan út árið 2000 og fékk nafnið “Brave New World”. Hún seldist vel, fékk góða dóma og var bara hörkugóð. Hún tók við þar sem “Seventh Son….” hætti og má varla heyra að þarna séu menn í kringum 45 ára að rokka, svo góð er hún. Lög eins og “The Wicker Man”, “Blood Brothers”, “The Fallen Angel” og titllagið eru Maiden eins og þeir gerast bestir. Þeir fóru á stóran túr (ég sá þá á Roskilde 2000) og þeir slógu í gegn (á ný) hvert sem þeir fóru. Sá túr gaf af sér eina tónleikaplötu sem kom út fyrir stuttu og bar heitið “Rock In Rio”. Von er á nýrri plötu frá þeim snemma á næsta ári og það er til mikils að hlakka því það verður sama lineup.

UP THE IRONS!!!!