Fyrir nokkru var ég með útvarpsþátt í háskólaútvarpinu sem bar heitið Óskalög þunglyndra. Ég vænti þess að þetta útvarp hafi gjörsamlega farið framjá almenningi, og þar sem ég gerði þetta líka fína handrit datt mér í hug að deila því með ykkur svo það fari ekki til einskis. Ég ætla að birta það í smáskömmtum, hvert lag fyrir sig og byrja hér á Neil Young. Þið verðið svo bara dugleg að dissa mig ef ykkur finst þetta leiðinlegt eða finnið staðreyndarvillur:

Komiði Sæl. Ég heiti XXX og þetta er þátturinn Óskalög þunglyndra. Í þættinum munum við hlíða á rólega og tregafulla tónlist með flytjendum á borð við Neil Young, Lou Reed, Johnny Cash, Tom Waits, Nick Cave og fleirum og heyra fróðleiksmola um lög og flytjendur. Svo þið hlustendur skuluð bara fá ykkur kaffi, halla aftur augunum og njóta.

Neil Young


Árið 1966 keyrði ungur tónlistarmaður frá heimalandi sínu Kanada alla leið til Los Angeles í gömlum líkbíl til þess að freista gæfunnar. Það tókst nú heldur betur hjá honum því þessi maður var Neil Young og nú þrjátíu og sex árum síðar er hann orðinn einn áhrifamesti söngvari sinnar kynslóðar og er enn þá að rokka. Hann á glæstan feril að baki og hefur m.a. verið partur af stórgrúppunum Buffalo Springfield og Crosby, Stills, Nash and Young og hefur gefið út yfir þrjátíu sóló-plötur. Neil spilar einhverskonar blöndu af mildri þjóðlagatónlist, kántríi og háværu rafgítarrokki en hann er ekki hræddur við að flakka á milli tónlistarstefna. Á níunda áratugnum gerði hann meira að segja. tilraunir með rokkabillí og raftónlist með misjöfnum árangri. Plötufyrirtækið hans fór reyndar í mál við hann á þessu tímabili fyrir að gera ekki nógu “Neil Young” legar plötur, en það er önnur saga.

Lagið sem við ætlum að heyra með honum er af plötunni Harvest sem gefin var út árið 1972 en hún var fjórða og jafnframt vinsælasta sólóplata hans. Lagið heitir The Needle and the Damage Done og samdi Neil það um vin sinn Danny Whitten og heróínfíkn hans. Danny þessi var gítarleikari hljómsveitarinnar Crazy Horse, en það er sú hljómsveit sem spilar oftast með Neil. Danny lést síðan úr of stórum skammti af heróíni sama ár og platan kom út. Skömmu síðar dó annar vinur Neils á sama hátt, gamli rótarinn hans Bruce Berry.

Þessi dauðsföll höfðu mikil áhrif á Neil og urðu til þess að næsta plata sem hann gerði Tonights the Night árið 1973 varð svo drungaleg, hrá og tormelt að plötufyrirtæki hans treysti sér ekki til þess að gefa hana út fyrr en tveimur árum síðar. Reyndar gerði hann þrjár myrkar plötur í röð sem tileinkaðar voru þessum látnu félögum en Tonights the Night er sú eina sem fáanleg er á geisladiski í dag.

Nýjasta plata Neil Young’s er komin í búðir og heitir hún Are you Passionate.

Hér hins vegar The Needle and the Damage Done af plötunni Harvest:

Lag 2 – tími 2:02

Þetta var Neil Young að flytja The Needle and the Damage Done, átakanlegt lag um böl heróínfíknar.