JEFF BUCKLEY MINNINGARTÓNLEIKAR í Þjóðleikhúskjallaranum annað kvöld.
ANNAÐ kvöld klukkan 22:00 munu fjölmargir hljóðfæraleikarar og söngvarar stíga á svið til þess að taka ódauðleg lög Jeff heitins Buckleys.
Fyrir þá sem ekki vita drukknaði Jeff Buckley fyrir fimm árum í Missisippi-fljótinu í Memphis í Bandaríkjunum -þá aðeins þrítugur. Hann gaf aðeins út eina fullkláraða breiðskífu, Grace, sem talin er meistaraverk, en auk þess hafa komið út nokkrar tónleikaplötur, þ.á.m Mystery White Boy, Live At Sin-é og Live A L 'Olympia og einnig kom út fyrir fáeinum árum tvöfaldur diskur með ýmsum ókláruðum upptökum eftir Buckley.
Nú, þegar nákvæmnlega fimm ár eru síðan hann lést, munu Franz Gunnarsson og tónlistartímaritið Sánd halda uppi heiðri listamannsins með því að halda honum öfluga minningartónleika. Fram mun koma fimm manna hljómsveit sem skipar Franz Gunnarsson, Pétur Hallgrímsson, Birgir Kárason, Arnar Örn Gíslason og Hrafn Thoroddsen og einnig munu níu söngvarar; Karl Henry Hákonarson, Magnús Haraldsson, Kristófer Jensson, Sara Guðmundsdóttir, Rósa Birgitta Sigríðardóttir, Guðfinnur Karlsson, Krummi Björgvins, Gunnar Ólason og Elín Jónína Ólafsdóttir koma fram. Þess má geta að allir sem koma fram eru einlægir aðdáendur Buckleys!
Forsala aðgöngumiða stendur nú yfir í Japís, Laugavegi 13 og er miðaverð í forsölu 500 krónur, en 700 krónur við innganginn. Húsið opnar klukkan 21:00 og munu tónleikarnir hefjast stundvíslega klukkan 22:00. Tilboð er á veitingum og er aldurstakmark 18 ár.