Það hafa margir beðið um grein um 2. kvöld múskíktilrauna og ég reyni að verða við því. Mér finnst þetta hafa verið lakasta kvöldið af þeim þrem sem hafa verið, sérstaklega þar sem byrjað var á þrem hardcore hljómsveitum, en það er einmitt ekki uppáhalds tónlistarstefnan mín.
Einnig finnst mér gaman að benda á að í gagnrýni Morgunblaðsins tekur gagnrýnandinn fram að undarlegt þykir að engin hardcore hljómsveit skuli hafa spila. Segið mér hugamenn; voru ekki þrjár fyrstu hljómsveitirnar hardcore hljómsveitir? Hefur mér skjátlast svona lengi þegar ég hélt að þetta væri harðkjarni sem þessar hljómsveitir spiluðu.

Lack of trust
Þeir spiluðu það sem ég hélt vera harðkjarna. LOT var sú lakasta af þeim þrem hardcore hljómsveitum sem spiluðu. Gítarinn heyrðist ekki, trommarinn réð ekki við taktinn og söngvarinn gat ekki öskrað heldur másaði bara í mækinn. Þetta ógilti lögin alveg að mínu mati og þetta varð bara að suði.

Down to earth
Ef einhver hardcore hljómsveitanna hefði átt að fara í úrslit þá hefð DTE að fara. Þeir vorum magnaðir og höfðu skemmtilegasta trommara kvöldsins. Sá kunni að skemmta sér (og öðrum) uppi á sviði. Söngvarinn var líka flottur, með góða rödd og með skemmtilega sviðsframkomu en mætti ná meira sambandi við salinn.

Fake Disorder
Þeir voru öflugir og söngvarinn var andsetinn í sínum köflum. Þess á milli var eins og að hann vissi ekki hvað hann ætti að gera af sér. FD byrjuðu settið á því að fá lánaða “nokkra” trommukjuða fyrir trommarann til að hafa til vara og það var þó nokkuð gott þar sem hann missti kjuða þrisvar eða oftar. Hann náði sér samt alltaf strax á strik og gerði gífurlega góða hluti. Mjög góð sveit en ég afskrifaði hana sjálfur og bjóst ekki við að hún kæmist áfram.

Natar
Greyið Natar. Ef þeir halda áfram á þeirri braut sem þeir eru núna munu þeir fá Noise syndróm og aldrei losna við Nirvana ripp-off stimpilinn. Þeir eru ungir og kannski er maður of harður en hins vegar voru lögin þeirra mjög einföld grunge-lög og ekki bætt við það sem áður hefur komið. Það sem er skondið (þó það skipti kannski ekki máli hvað varðar tónlistina) var að söngvarinn virtist vera að stæla Ragnar Zolberg, með svartar neglur og skyrtu sem er skuggalega lík skyrtunni á coverinu á “Vindar og Breytingar”.

Tannlæknar Andskotans
Ég var alls ekki sáttur við að TA kæmust í úrslit. Fyrsta lagið þeirra var alls ekki gott og illa æft og aðeins einn þeirra gat rappað án þess að lesa af blaði. Sá fær auka punkta hjá mér þar sem hann var einnig sá sem var með smá sviðsframkomu. Hin lögin tvö voru betri en alls ekki sambærileg við Tópaz/Kaffikönnu sem var á 3. kvöldinu. loop-urna milli rímnanna voru oft of langar en samt góðar hugmyndir á bak við þær.

Tími
Tími var með ágætis tónlist en frekar einfalda og lítið að gerast. Hann fær þó plús fyrir að vera skemmtilegur milli laga en eins og er galli við marga tölvutónlistarmenn þá er sviðsframkoman nær engin.

Búdrýgindi
Búdrýgindi eru að mínu mati ein efnilegasta hljómsveit landsins. Þeir spila af miklu öryggi og voru vel æfðir á kvöldinu. Sviðsframkoman var örugg og skemmtileg og tók söngvarinn bókstaflegan luftgitar í þriðja laginu. Þeir semja góð lög með góðri uppbyggingu en hins vegar hafa þeir stóran galla. Textarnir þeirra eru mjög barnalegir. Sumir myndu benda á að þeir eru ungir en Siggalafó textinn er texti sem 10 ára krakki myndi semja. Þrátt fyrir það voru þeir bestir á þessu kvöldi.

Threego
Tölvukall með karakter. Tvímælalaust besti tölvutónlistarmaðurinn hingað til. Lögin hans voru skemmtileg áheyrnar og svo var maðurinn óhræddur við að hreyfa sig á sviðinu. Þessi maður er fæddur skemmtikraftur.

Kitty-Genzic
Hvort sem þeir gerðu það meðvitað eða ekki þá stálu þeir að stórum hluta fyrsta og öðru laginu sínu. Dómararnir vissu það, áhorfendur vissu það og ég var svekktur yfir að mega ekki gefa þeim 0 stig.

Whool
Whool var mjög litlaus hljómsveit. Söngvarinn reyndi lítið á sig þó svo að hann virtist geta eitthvað hefði hann reynt. Þeir voru greinilega vel æfðir en lögin voru ekki eftirminnileg. Hljómborðsleikarinn spilaði sinn hluta vel en féll samt sem áður ekki inn í heildarmyndina. Svo virkaði hljómsveitin öll frekar feiminn við salinn.

Búdrýgindi voru valdir af salnum og dómnefnd valdi Fake Disorder og Tannlækna Andskotans.
www.dojopan.com