Ég mætti um klukkan átta niðrí miðbæ í gær og var ætlunin að fara á tónleika með kanadísku síðrokkssveitinni Godspeed You Black Emperor! í Íslensku Óperunni. Það var byrjuð að myndast röð um klukkan korter yfir.
Klukkan 20.45 var hleypt inn og fólk lét eins og þetta væri útsala í Elkó en ekki tónleikar í Óperunni, það var troðist og öskrað. Allir (a.m.k. flestir) fengu þó sæti við hæfi að lokum. Uppúr níu byrjaði hljómsveitin Stafrænn Hákon að spila og ég kann ekki frekari deili á þeim, en ég tók þó eftir að einn af þeim er í rafdúettnum Ampop. Þeir spiluðu tvö lög. Fyrra lagið var fínt framan af, en eftir 10 mín án mikilla breytinga var það orðið mjög þreytt. Það var þó ekki búið þá, það var ekki einu sinni hálfnað. Ég held að þetta hafi verið eitt af fáum skiptum sem ég hef virkilega verið að bíða eftir að lag endaði. Þegar yfir yfir lauk hafði þetta lag tekið 25 mín. og þeir hefðu pakkað því niður í 7-8 mín. ef þeir ætluðu að halda því áhugaverðu. Ég nennti því varla að hlusta á seinni lagið, sem var þó mun skárra, enda tók það aðeins um 8 mín.
Eftir Stafrænan Hákon kom korters sígópása.
Um tíuleytið var komið að aðalréttinum (verst að Stafrænn Hákon höfðu bara kælt mann niður, ekki hitað upp) Godspeed You Black Emperor!. Þarna voru þau samankomin 9 manns, 3 gítarleikarar, 2 bassaleikarar, 2 trommuleikarar, 1 fiðluleikari og 1 sellóleikari. Ég hef verið aðdáandi þeirra í u.þ.b 3 ár, en ég hafði aldrei séð almennilega mynd af þeim, þannig að það var gaman að sjá þau loks í persónu. Þau byrjuðu á fyrra laginu á fyrri disknum í Lift Yr. Skinny Fists Like Antennas To Heaven stykkinu. Þetta var ótrúlegt, mér leið bara nánast illa yfir því að vera þarna og heyra þetta svona læf. Þau spiluðu nánast eins og þau væru andsetin og mér langaði bara til að gráta af gleði yfir því vera þarna. Þau flökkuðu nokkuð vel á milli platna sinni og ég tók alveg eftir tveimur lögum sem voru á fyrstu breiðskífu þeirra F#A#(infinity) og þótti mér gaman að heyra það. Þau spiluðu einnig fullt af efni sem ég hef aldrei heyrt áður (ég hef aldrei hlustað á All lights fucked up on the hairy amp drooling teipið) og hljómaði það allt saman mjög vel. Annar trommarinn var greinilega búinn að prófa að nota fiðluboga á allt, hann spilaði soldið á trommudiskinn með fiðluboga. Það var aðeins eitt sem passaði ekkert inní þetta allt saman, þegar einhver (man ekki hver) fór að spila á blokkflautu(allt gott og blessað við það) sem bara hljómaði asnaleg og fölsk og passaði ekki inní neitt, sem betur fer áttaði flautuleikarinn sig á því líka eftir 15 sek. og hætti því. Aðeins tvisvar á tónleikunum (fyrir utan uppklapp og enda) kom alveg þögn sem gerði fólki kleyft að klappa. Þau voru klöppuð beint upp á svið aftur eftir að þau luku sér af. Þá spiluðu þau lagið “Moya” af plötunni Slow Riot for new zero Kanada EP og þetta er lagið sem ég var fyrst og fremst að vonast til þess að heyrast, en átti þó ekki von á því. Þetta var frábært.
Þetta var fullkomin kvöldstund í gær og maður var bara alveg stjarfur í klukkutíma eftir tónleikana í gær. Ég er í alvöru talað að pæla í að fara aftur í kvöld og setja mig í smá skuldir. Stemmningin var góð og eins og ég heyrði einhvern segja að þá gæti þessi viðburður jafnvel farið í heimsmetabók Guinness fyrir flestar lopahúfur komnar saman á einum stað. Ég mæli með því fyrir alla sem fóru ekki í gær að drullast niður í Hljómalind sem fyrst og kaupa miða á tónleikana í kvöld. Það ætti að vera skyldumæting fyrir alla sem halda því fram að þeir hlusti á góða tónlist. Godspeed You Black Emperor! eru best! 10/10