Kvennahljómsveitin Rockbitch veldur usla hvert sem hún fer og ekki að ástæðulausu. Á tónleikum koma þær gjarnan fram naktar, stunda munnmök og drekka bjór sem þær svo pissa yfir áhorfendurna. Þær standa fyrir keppninni “gullni smokkurinn “ þar sem smokk er hent út í áhorfendaskarann og sá sem grípur hann fær að fara baksviðs og njóta góðrar stundar með einum hljómsveitarmeðlimanna. Í fljótu bragði virðist þetta ekki vera meira en ódýr sölubrella og sýndarmennska en ef nánar er að gáð kemur í ljós að það er saga á bakvið bandið, heimspeki á bak við félagsskapinn og markmið með öfgunum.
Rockbitch samanstendur af sex breskum kvenmönum sem búa saman í kynlífskommúnu í Frakklandi. Það eru fleiri í kommúnunni heldur en eru í hljómsveitinni en þar eru aðeins þrír karlar. Allar konurnar eru lesbískar eða tvíkynhneigðar og engin stök pör eru leyfð. Bassaleikarinn Amanda “the Bitch” stofnaði kommúnuna og hljómsveitina fyrir næstum tíu árum. Draumur hennar var að lifa í feminísku samfélagi þar sem konur gætu rannsakað kynferði sitt og sálarlíf án utanaðkomandi pressu um hvernig þær eigi að vera.
Þær segjast iðka forn tantrísk fræði með vestrænum keim. Allt kynlíf, líkaminn og allt sem hann framleiðir er þeim heilagt. Þær leggja áherslu á frjálsar ástir og rétt fólks (og þá sérstaklega kvenna) til að vera frjálst í eigin líkama og anda. Þær líta á kynlífsiðkun sem hluta af tjáningarfrelsi og leggja sig fram við að brjóta kynferðisleg tabú þjóðfélagsins. Hljómsveitin er það tæki sem þær nota til þess að breiða út fagnaðarerindið.
Í byrjun voru þær tiltölulega siðprúðar á sviðinu og létu sér nægja að syngja um öfgafult kynlíf og kúgun kvenna en voru þeim mun villtari baksviðs. Þær segja að karlahljómsveitir hafi iðulega hneikslast á framferði þeirra. “Þeir fóru á svið og öskruðu þessa uppgerðar uppreisn sína gegn þjóðfélaginu en hneyksluðust svo á hegðun okkar baksviðs og spurðu hvort foreldrar okkar vissu hvað við værum að gera,” segir gítarleikarinn og bakraddasöngkonan Babe á heimasíðu sveitarinnar www.rockbitch.co.uk. “Rokk-klisjan er greinilega bara fyrir karlmenn. Öll rokksagan hefur snúist um það að tjá kynferði karla allt frá Elvis og mjaðmahnykkjum hans til dagsins í dag. Það er viss hegðun sem er talin vera kvenleg og viss hegðun sem talin er karlmannleg og við ætlum okkur að storka þessu tvöfalda siðgæði .” Babe segir að stelpunum í hljómsveitinni hafi fundist þær vera að ritskoða sjálfa sig með því að hegða sér ekki á sviði eins og þær gerðu baksviðs eða í lífi sínu. Þær hafi því ákveðið að gera hvað sem þeim sýndist á sviðinu, tjá skoðanir sínar um bælingu á kynferði kvenna og skemmta sér konunglega í leiðinni.
Rockbitch hefur mætt mikilli andstöðu vegna sviðsframkomu sinnar og hafa femínistar jafnt sem hægrisinnaðir kristnir sameinast í andúð sinni á hljómsveitinni. Yfirvöld hafa oft þurft að banna eða takmarka mjög það sem stelpurnar mega gera á tónleikum. Tónleikar þeirra voru t.d. stoppaðir af með lögregluvaldi í Berlín fyrir nokkru þar sem yfirvöld höfðu frétt að hljómsveitin spilaði nakin á sviðinu. Babe öskraði við það tilefni yfir æstan áhorfendaskarann: “Það er kallað á einkennisklædda lögreglumenn til þess að stoppa stelpu sem spilar á gítar ber að ofan. Hversu margir karlmenn í rokkhljómsveitum hafa spilað gítar berir að ofan?”
Hafa verður þó í huga að þessi röksemdarfærsla stelpnanna gengur ekki alveg upp í ljósi þess sem á gengur á tónleikum þeirra. Karlmönnum yrði aldrei leyft að gera það sem þær gera. Jim Morrison var handtekinn á sínum tíma fyrir að hafa sýnt á sér tólið á sviði (var aldrei sannað) og tónleikar Marilyn Mansons og Eminems eru bannaðir víða þó hegðun þeirra sé ekki nálægt því eins gróf og stelpnanna. Babe segir eftirfarandi á heimasíðu sveitarinnar: “Þegar kona getur ekki farið úr að ofan og spilað flott gítarriff á meðan söngkonan ríður henni með gervilimi og áhorfandi sleikir á henni tærnar, hvað er þá orðið um heim rokks og uppreisnar?
Tónlist þeirra hljómar við fyrstu hlustun eins og gamaldags þungarokk með pirrandi gítarsólóum og ballöðum sem væru fyndnar ef stelpunum væri ekki fúlasta alvara. Ef lagt er betur við hlustirnar koma gæði tónlistarinnar þó í ljós og tókst mér á endanum að finna eftirfarandi skilgreiningu á henni: technoskotin blanda af gothic-, iðnaðar-, og nýbylgjurokki! Stelpurnar leggja eins mikla vinnu í tónlistina eins og í lífstíl sinn og eru þær allar sprenglærðar á hljóðfæri, flestar með klassískt nám að baki. Söngkonan Julie þenur raddböndin á tilkomumikinn hátt og hefur Amanda “the Bitch” verið kölluð snillingur á bassanum.
Fyrsta og eina plata Rockbitch kom út árið 1999 og kallast \“Motor Driven Bimbo.\” Hún hefur fengið ágætis dóma hjá þeim fáu fjölmiðlum sem hafa þorað að fjalla um hana. Ekki veit ég til þess að platan sé fáanleg hér á landi en þeir sem eru með forrit eins og til dæmis KaZaA eða Audiogalaxy geta hlaðið niður lögum þeirra (hægt er að nálgast þessi forrit á http://www.kazaa.com/ og http://www.audiogalaxy.com). Þá mæli ég sérstaklega með lögunum “SNAFU” sem er rappskotið rokk af bestu gerð og “Diva,” sem er lesbískur ástarsöngur í formi gamaldags rokkballöðu. Stelpurnar eru um þessar mundir að vinna að næstu plötu og kemur hún út eftir áramót.