Ég hlusta mikið á tónlist, er bæði að læra á hljóðfæri og að syngja. Mín uppáhaldstónlist er rokk og þar af leiðandi hlusta ég mest á þess konar tónlist. En mér þykir miður að ég heyri aldrei í rokksöngkonum. Rokkið virðist ekki eiga neina söngkonu sem er þekkt, og er að gera eitthvað af viti í dag!

Er það kannski svo að stelpur geta ekki orðið frægar á rokksöng? Það mætti halda að EF einhverjar söngkonur syngi rokk þá hljóti þær að eiga mjög erfitt uppdráttar. Eru þær kannski hræddar við að steypa sér út í þetta karlaveldi sem rokksöngur er orðinn?
Annars eru kerlingar hrikalega sérvitrar. Það mætti halda að þær héldust aldrei í hljómsveit. Um leið og hljómsveitin verður þekkt ofmetnast söngkonurnar og snúa sér að sólóferli þar sem þær gefa út plötur með frumsaminni tónlist sem hreint út sagt er skelfileg. Þið kannist við þetta er það ekki? Heiða úr Unun er dæmi um kellingu sem linaðist og hélt að hún væri merkilegri en restin af bandinu!

Getur verið að kvenmenn hlusti ekki á rokk? Því trúi ég tæpast… en kannski finnst söngkonum að rokksöngur sé óæðri en annar söngur. Það er ekki mín skoðun. Komast þær hreinlega ekki í hljómsveitir vegna kynferðis þeirra? Ég veit að minnsta kosti að það er allt morandi af kellingum í poppinu, þónokkuð í kántrýinu og jafnvel rappinu.

Ég held að ef einhver stelpa sem getur eitthvað sungið tæki upp á því að syngja rokk þá væri það svo sérstakt að það tæki hana enga stund að verða þekkt. Ég er á því að það vanti fjölbreytni í rokksöng og hún fæst meðal annars ef að kellingar tækju sig til og færu að syngja rokk.

umsalin