Hér á landi hefur ekki verið um auðugan garð að gresja í útgáfu á sögu rokks og annarrar tónlistar í gegnum árin. Ljóst er að það vantar einhverja bók sem sýnir heildstæða og hlutlausa mynd af sögu hennar á Íslandi. Nokkrar bækur hafa reyndar komið út í gegnum árin, nú síðast Rokk á síðustu öld e. Gunnar L. Hjálmarsson, sem er reyndar skemmtileg afþreying en vantar alla heildstæða mynd, auk þess sem hún er(ómeðvitað) all huglæg á köflum og vantar þá faglegu sýn sem nauðsynleg er til að vera gjaldgeng sem fræðirit. Það var hins vegar ekki markmið Gunnars, og er ekkert við það að athuga. Bókin er t.d. mjög skemmtileg lesning.
Fyrir rúmlega tíu árum ritaði Gestur Guðmundsson félagsfræðingur Rokksögu Íslands, sem var steypt í sama mynstrið, ágæt sem slík en ekkert fræðileg, fyrir utan það að huglægari sagnfræði hefur maður vísast aldrei séð, hvorki fyrr né síðar. Áður hafði Jens Kr. Guð. skrifað Poppbókina sem Æskan gaf út en hún var í raun ekkert annað en plötudómabók með teikningum eftir höfundinn. Lítið annað efni hefur litið dagsins ljós á Íslandi, utan sögur hljómsveita eins og Sykurmolanna og Hljóma, ævisögur einstakra tónlistarmanna (Bubba Morthens, Guðrúnar Á. Símonar, Hallbjörns Hjartarsonar, Björgvins Halldórssonar o.fl.), auk mynda- og textabóka tengt Björku, Skítamóral o.fl. Einnig hafa komið út ýmsar skrár s.s. Íslensk hljóðritaskrá (kemur út árlega), auk skrár sem kom út 1955 og innihélt þær plötur sem þá höfðu komið út á Íslandi. Andrea Jónsdóttir poppfræðingur vinnur nú að eins konar tónlistarsögu Íslands og eftir því sem ég best veit, á hún að koma út um næstu jól.
Af þessari upptalningu að dæma er rokk og popphefð okkar Íslendinga lítt eða óvarðveitt á faglegum grunni, þ.e. með tilheyrandi heimildavinnu þar sem kafað er djúpt í kima hvers tónlistarmanns, og ferill hans greindur og raðað í samhengi við annað sem er á döfinni. Hroðvirknisleg vinnubrögð og tímaskortur virðist oft hrjá þessa höfunda sem unnið hafa slík verk, þótt auðvitað séu þau útgefnu verk vel þegin og í raun ómissandi þó þau geri ekki annað en að lýsa tíðarandanum í þann tíma sem þær eru skrifaðar, með tilheyrandi huglægni. Þetta er synd vegna þess að íslensk tónlistarhefð með allri sinni flóru, á miklu meira en þetta skilið. Það er von mín að Andrea muni brjóta blað með sinni bók, hvað fagleg vinnubrögð varðar. Eða hvað finnst ykkur???