The White Stripes er hljómsveit sem mætti alveg fá meiri athygli. Lagið Hotel Yorba er reyndar komið í spilun á Radíó X en það kemur einmitt af nýjustu plötu systkynadúettsins en er þó því miður ekki lýsandi fyrir plötuna þótt ágætt sé.
Platan White Blood Cells er fyrsta heila platan sem ég kemst yfir og þar með heyri með þessu áhugaverða bandi frá Detroit. Þetta er þriðja plata þeirra en ég hef heyrt efni af þeim fyrri og ákvað að skella mér á þá nýjustu þar sem hún var komin í búðir hér á klakanum. Platan byrjar á laginu Dead Leaves and the Dirty Ground en það er einmitt fyrsta lagið sem ég heyrði með bandinu, lag sem hreinlega greip mig og neyddi mig til að fletta þeim upp á Audiogalaxy og ná í lagið og meira til (mæli eindregið með frábæru cover á Bob Dylan laginu One More Cup of Coffee!).
Dead Leaves er kannski ekki besta lag plötunnar en afbragðsgott og verulega grípandi ef maður er hrifinn af hráu rokki. Eins og í mörgum lögum á disknum er gítarsándið yndislega hrátt og stórt, maður sér fyrir sér Gibson hálfkassa rafmagnsgítar og lampamagnara stilltan á 11! Lagið gefur tóninn fyrir restina af disknum, gítar feedback og einfaldur trommuleikur, ekkert verið að fínpússa neitt um of. Textarnir eru grípandi og góðir og Jack White syngur þá af innlifun og nýtir hráa rödd sína til hins ítrasta hvort sem að lagið kallar á kaldhæðnis rokk attitude eða angurværð.
Uppsetning bandsins er með því einfaldasta, Jack White spilar á gítar og syngur og stundum er tekið í píanó. Systir hans Meg White spilar á trommur og gerir það á einfaldan máta, svo sannarlega er hún ekki upprennandi trommusnillingur en þetta dugar alveg ágætlega rétt eins og bakraddirnar hennar. Lögin semja þau svo öll sjálf í fyrsta skipti en fyrri plötur höf´ðu alltaf innihaldið cover lög.
Diskurinn er 16 laga en ekki nema rúmar 40 mínútur. Ekkert lag nálgast 4 mínútur og sum ákaflega stutt eða bara stutt pæling eins og hið 50 sekúndna Little Room. Ég ætla nú ekki að fara yfir hvert einasta lag á diskinum en það er vert að minnast á lag 2 áður en ég klára að gefa disknum í heild stig. 2. lagið er Hotel Yorba sem eins og áður sagði er í spilun á X-inu og komst meira að segja á Pepsi Rokk 20 listann mér til mikillar undrunar. Lagið er glettið þjóðlagaskotið rokklag, ákústískt en hressilegt. Prýðislag en skrítið val sem fyrsti singull ef það er þannig tilkomið á spilunarlista Radíó-X.
Á heildina er tónlistin temmilega kraftmikið, hrátt og einfalt rokk með rólegri eða léttari lögum inn á milli og má sjá að áhrifavaldar koma úr kántrítónlist enda platan tileinkuð Loretta Lynn. Aðrir áhrifavaldar eru örugglega svartur blús og þjóðlagatónlist og gætu þau systkynin ábyggilega samið prýðilega þjóðlagatónlist m.v. gæði textanna og tilfinningarinnar sem er að finna á plötunni. Ef fólk hefur áhuga á að kanna eitthvað sem er frumlegt og spennandi, þó kannski ekki frammúrstefnulegt, þá er margt að finna á White Blood Cells sem ætti að vekja athygli.
Platan var af mörgum talin með þeim bestu frá síðasta ári og er ég ekki frá að hún eigi a.m.k. heima á topplistum hvað það varðar. Allavega finnst mér viðeigandi að gefa henni ***½ af fjórum stjörnum mögulegum.