Plöturnar þeirra eru jafn misjafnar og þær eru margar. Það er erfitt að festa fingurinn nákvæmlega á tónlistarstefnu Clutch, en það er ljóst að áhrif úr mörgum áttum spila inní. Einfaldast væri að tala um stóner rokk, en það er of mikil einföldun. Metal áhrif eru töluverð, tónlistin er einhversstaðar á mörkum rokks og þungarokks, en þeir flétta líka inní tónlistina fönk og alveg heilmikið grúv. Í seinni tíð hefur svo blúsinn farið að segja meira til sín og er ekkert nema gott um það að segja. Þó að það sé kannski ekki hægt að greina tónlistarstefnu Clutch á einfaldan hátt hef ég stundum sagt þegar ég er spurður að þeir spili rokk og ról, með mikilli áherslu á ról.
Eins og áður sagði hefur áherslan hjá Clutch oftast legið í tónleikahaldi og stundum finnst manni eins og plöturnar séu látnar mæta afgangi. Þeir mæti í hljóðverið og djammi af sér rassgatið og útkoman verður svolítið eins og það eigi eftir að ganga almennilega frá öllum lausum endum eða endurskoða lagaval. Þegar ég byrjaði að vinna mig í gegnum plöturnar þeirra rak ég mig á það aftur og aftur að flestar lofuðu plöturnar góðu en svo var eins og þeir nenntu ekki alveg að klára verkið. Nokkur góð lög og svo uppsópið af gólfinu í lok vinnudags notað til að fylla uppí restina og látið gott heita. En svo setti ég Blast Tyrant á fóninn og síðan þá hef ég verið ástfanginn af hljómsveitinni.
Það fyrsta sem greip við plötuna var reyndar nafnið, Blast Tyrant (eða Blast Tyrant's Atlas of the Invisible World Including Illustrations of Strange Beasts And Phantasms eins og hún heitir óstytt). Það var eitthvað sem var bara of töff við þetta nafn, harðstjóri sem spilar tónlist alltof hátt, en það er einmitt þannig sem er best að spila plötuna, þ.e. að blasta henni hressilega. Blast Tyrant grípur mann strax við fyrstu hlustun með lögum eins og The Mob Goes Wild, Cypress Grove, Army of Bono (já hér er verið að skjóta á hinn eina sanna Bono) og Subtle Hustle. Öll þessi lög eru „hefðbundin” Clutch lög, grúvið í þeim er svo yfirþyrmandi að jafnvel gallsúrustu fýlupúkar ættu að geta komist í gírinn við að hlusta á þau.
En keðja er aldrei sterkari en veikasti hlekkurinn. Blessunarlega er engan veikan hlekk að finna á Blast Tyrant. Vissulega er farið um víðan völl tónlistarlega séð, en Clutch mönnum bregst hreinlega ekki bogalistinn, sama hvað þeir reyna. Strax frá fyrstu nótu herja þeir á hlustandann með þéttu rokki og linna ekki látum fyrr en rúmum 50 mínútum seinna. Þungur bassahljómurinn rúllar undir í flestum lögum en er samt ekki jafn „skítugur“ og í hefðbundnu stóner rokki. Eftir að hafa spilað saman í meir en áratug eru Cluth liðar orðnir virkilega þétt spilandi grúppa og búnir að sníða af flesta vankanta og virkilega pússa til alla spilamennsku. Krafturinn í allri spilamennskunni er gríðarlegur en rjóminn ofan á allt saman er svo söngur Neil Fallon. Djúp rödd Fallons passar fullkomlega við grúvið og fönkið sem ræður ríkjum hjá Clutch. Stundum er krafturinn í honum slíkur að menn tala um að það sé nær að tala um predikun frekar en söng.
Fallon skilar líka sínu í textagerð, en textarnir á Blast Tyrant væru í raun efni í aðra grein. Efnistökin sækir hann oftar en einu sinni í goðafræði heimsins. Stundum smellir hann inn stökum setningum og vísunum í misþekktar goðsagnir (Ready to rock if you wanna roll/ please step away from the vehicle/ Ragnarock and revolutionize/ Gimme just a minute while I clarify) og svo eru líka heilu lögin um goðsagnir, eins og La Curandera (sjá meira um Curandera: http://en.wikipedia.org/wiki/Curandero) og Mercury. Fallon er bæði snjall og sniðugur textahöfundur, og það eykur töluvert á hlustunaránægjuna að fá með í kaupbæti snjalla og skemmtilega texta sem maður þarf aðeins að kjammsa á og melta til að ná þeim almennilega inn. Fallon tapar sér samt ekkert í goðafræðinni og fjallar líka um samtímaefni og t.a.m. skýtur hann föstum skotum á ráðamenn í Army of Bono og The Mob Goes wild en samt er aldrei langt í húmorinn (Condoleeza Rice is nice, but I prefer A-Roni.)
Ég hef stundum sagt að bestu plöturnar séu þær þar sem maður þarf aldrei að skipta um lag, eða öllu heldur vill ekki skipta heldur frekar hlusta á hana í heild, helst aftur og aftur. Blast Tyrant er tvímænalaust ein af þessum plötum. Við fyrstu hlustun grípa stuðlögin mann en eftir nokkrar hlustanir fara þessi þyngri að vinna á, en alltaf er þessi hressandi grúv fílingur undirliggjandi. Hjá mér var það a.m.k. þannig að ég átti mér fyrst eitt uppáhaldslag sem mér fannst bera af hinum en um leið og ég hlustaði aðeins lengur fór ég að hallast meira að öðru, án þess þó að verða afhuga síðasta uppáhaldi, og þannig koll af kolli. Hvert lagið á fætur öðru greip mig og að lokum var ég farinn að setja plötuna á repeat til að upplifa hana alla aftur í heild sinni.
Góðar plötur verða að eldast vel, og ég fullyrði að þessi gerir það. Ég að minnsta kosti hlustaði á hana nánast á hverjum degi í sumar á Ísbílnum, oft oftar en einu sinni og ég er ennþá jafn hrifinn og spila hana mjög reglulega. Að mínum dómi er hér um langbestu plötu Clutch að ræða og tvímænalaust eina af bestu plötum ársins 2004.
4,5 stjörnur af 5 mögulegum. (jafnvel 5 á góðum degi)
_ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _