Útgáfutónleikar Tvíhöfða
Hljómsveitin Tvíhöfði hélt útgáfutónleika í gær á Gauki á Stöng í tilefni af útgáfu geisladisksins “Konungleg skemmtun” sem er fjórði diskur þeirra félaga. Hann hefur fengið góða dóma og margir telja hann besta disk þeirra til þessa. Ég er samt á þeirri skoðun að sá fyrsti sé sá besti (Til hamingju). Tvíhöfði náði að skapa rólega og skemmtilega stemmingu í gær með kertaljósum og báðu fólk um að setjast bara á gólfið og njóta tónlistarinnar. Sigurjón var með kassagítarinn og þeir félagar tóku mörg helstu gítarlög Tvíhöfða í gegnum árin. Þeir tóku meðal annars eitt lag sem þeir sömdu á staðnum við góðar undirtektir, eitt sveitaballalag og kassagítars-útgáfu af laginu “My Bitch” sem gerði allt vitlaust á sínum tíma. Jón Gnarr fór á kostum milli laganna með ýmsar pælingar um lífið og tilveruna, meðal annars fékk lögreglan að heyra það óþvegið. Þeir gáfu gestum það ráð að hætta að hugsa um allt ljótt sem væri að gerast í heiminum, við eigum bara að hlæja og skemmta okkur og líta á björtu hliðarnar. Einnig komu fram smá athugsemdir um Megas, Sigur Rós og Bubba Morthens en þeir tóku eitt stutt lag til heiðurs Bubba og tóku það skýrt fram að hann væri mikill maður. Þeir voru svo klappaðir aftur á sviðið þar sem þeir tóku lokalag kvöldsins sem ber nafnið “Upphafslagið”. Hljómsveitin Buff steig síðan á svið eftir Tvíhöfðanum en það var ekki mikil stemming fyrir því að hlusta á þá og var ég kominn út úr húsinu áður en þeir tóku sitt fyrsta lag… En tónleikarnir mjög skemmtilegir og greinilegt að Tvíhöfði er ennþá hin besta skemmtun.