Það er fátt skemmtilegra en að draga fram úr diskasafni sínu snilldarverk sem maður hefur ekki hlustað á í nokkur ár og fara á myndarlegt nostalgíutripp. Milli áranna ´96 og ´98, rétt áður en allt síðrokkið fangaði huga minn, var belgíska art-progressive rokkhljómsveitin Deus sú mest spilaða á mínu heimili. ég hef verið að rifja upp kynni mín af sveitinni og mikið óskaplega eldist þetta eðalrokk þeirra vel. Ég hef alla tíð dauðskammast mín fyrir að hafa ekki uppgötvað Deus af neinni alvöru fyrr en anno 1996, næstum því tveimur árum eftir að frumburður sveitarinnar “Worst case Scenario” kom út. Mikið til kenni ég metnaðarlausum útvarpsmönnum um það hversu illa kynnt þessi rokksveit hefur verið í gegnum tíðina. Hef löngum verið þeirrar skoðunar að áðurnefndur frumburður sveitarinnar sé með best heppnuðu debut-verkum í gervallri rokksögunni. Og hana nú! Þroskinn sem kom fram á plötunni gaf til kynna að hér væru ekki byrjendur á ferð. Hin erfiða plata númer 2 hét “In a bar, under the sea” kom út 1996 og hefur alla tíð verið vanmetin plata að mínu mati. Lagasmíðar frá himnaríki var þar að finna.
Deus er þó ekki fullkomin rokksveit. Lítilsháttar mannabreytingar hafa orðið í gegnum tíðina og síðari verk þeirra standa þeim tveimur fyrstu aðeins að baki. Deus hafa alveg síðan 1994 átt það til að skjóta yfir markið í listrænum tilburðum (hafa hoppað óhikað úr kraftmiklu en sinfónísku nineties nýbylgjurokki yfir í Tom Waits, Miles Davis og Captain Beefheart meira að segja!). En á góðum degi eru lagasmíðar þeirra ekkert minna en stórkostlegar og Deus þá besta hljómsveit heims. Lög eins og “Disappointed in the sun”, “Right as rain”, “Serpentine” og “Hotel Lounge” eru klassískur vitnisburður um snilld þessarar sveitar og “Suds ´N soda” (þekktasta lag sveitarinnar) er einfaldlega í hópi bestu singula 10. áratugarins. Það er löngu kominn tími til að Deus séu settir á þann stall sem þeir eiga skilið. Þetta er án nokkurs vafa langbesta rokksveit Suður- Evrópu og má færa rök fyrir því að framúrstefnupælingar þeirra hafi rutt brautina fyrir t.a.m. snillingana í Radiohead. Eru það stór orð? Held ekki. Þó má vissulega rífast um slíkt.
P.s. Myndbönd Deus eru ávallt kúl. Myndböndin við “Via” og “For the roses” eru áhrifarík og myndbandið við brassgeðveikina “Theme from Turnpike” sem kom út 1996 er brjálæðislega kúl í sínum einfaldleika. Bandaríski skapgerðarleikarinn Seymour Cassel leikur í því. Snilld!