Barnaskapur í Corgan?
Ég hef verið að velta fyrir mér ástæðum þess að Billy Corgan leysti upp The Smashing Pumpkins. Er það rétt sem hefur verið í fréttum að honum finnist sem allar Agjúlerurnar og bojböndin séu að taka yfir heiminn? Ég trúi varla að jafnklár maður og hann sé með svo grunnhyggna skoðun! Þó að Radiohead, Britney Spears, Dwight Yoakam og Andrea Bocelli, slysist inn á sama Topp 10-Billboard vinsældarlistann í sömu vikunni, er ekki þar með sagt að þau séu í sama geiranum, er það? Vill Billy Corgan að 9-11 ára stúlkur fíli Smashing Pumpkins? Væri það eðlilegt og heilbrigt? Flest tónlist er meðvitað eða ómeðvitað markhópatengd. Þetta vita tónlistarmenn þó að fæstir viðurkenni þá staðreynd. Vissulega er ég einnig á þeirri skoðun að sykurpoppið sé sífellt að verða verra eftir því sem árin líða, en hvað hefur það með alternatíf-rokkgeirann að gera? Það þýðir voða lítið að nöldra yfir poppdrullunni frekar en meinstrím-rokkdrullunni sem er ekki hótinu skárri. Jafn-afkastamikill og frjór tónlistarmaður eins og Corgan leysir ekki frábært rokkband upp út af nöldri yfir umheiminum. Fannst honum kannski að sveitin sem slík sé komin á listræna endastöð? Hver er hin raunverulega ástæða? Vitið þið hana? Ekki veit ég hana.