Jæja, nú ætla ég að halda í hefðina sem ég byrjaði á seinasta ári, að skrifa dóma um plötur ársins 2006 sem ég hef hlustað á. Plöturnar eru heldur færri en í fyrra, eða einungis 18. Ástæðuna tel ég vera þá að ég hef verið dálítið fastur í fortíðinni og er meira að hlusta á gamla tónlist eins og Pink Floyd og Bítlana og þess háttar. En hér eru allavega dómar um þær plötur sem ég hlustaði á nógu vel til að geta dæmt. Ég skammast mín reyndar dálítið fyrir að það eru bara 3 íslenskar plötur þarna, en ég var nú um daginn að fá nokkrar íslenskar plötur til viðbótar svo þetta stendur allt til bóta.
The Advantage-Elf titled
The Advantage hafa sett sér það markmið að kovera öll Nintendo lög sem hafa verið gefin út og það er vissulega áhugavert verkefni þar sem það eru fullt af skemmtilegum lögum sem eru komin þaðan. En platan er fín á köflum en geldur fyrir það hve lögin geta verið einsleit – maður nennir varla að hlusta á allan diskinn í einu heldur setur maður frekar á eitt og eitt lag.
Arctic monkeys-Whatever People Say I Am, That's What I'm Not
Þetta er einhver mest hæpaða plata ársins og gagnrýnendnur, sérstaklega í Bretlandi eru ekkert að spara lýsingarorðin á þessa hljómsveit. Að mínu mati stendur sveitin ekki undir öllu þessu lofi og platan er ekkert meistarastykki þó hún sé ágætis rokkplata. Lagið I bet you look good on the dancefloor er án efa eitt af lögum ársins, frábært lag sem ég væri vel til í að sjá á tónleikum.
Baggalútur-Aparnir í Eden
Íslensk kántríplata er ekki það sem maður heyrir á hverjum degi, en Baggalútsmenn hafa nú gefið út tvær. Þessi plata á alveg sín móment en persónulega er ég meira hrifinn af rokkaðri lögum baggalúts. Þeir fá þó mikinn plús fyrir textagerðina sem er oft stórfyndin. Uppáhalds lög eru Hófí og Allt fyrir mig.
Baggalútur-Jól og blíða
Hér er önnur plata Baggalúts á þessu ári. Platan er samansafn af jóla og aðventulögum þeirra gegnum árin ásamt nokkrum nýjum. Lögin eru mörg rokkuð, og ég held þau séu öll ábreiður. Textarnir á þessari plötu eru alveg æðislegir og mjög skemmtilegt hvernig þeir hafa breytt hörðustu rokklögum í jólalög.Tvímælalaust með betri jóladiskum sem ég hef heyrt! Uppáhalds lögin mín eru Kósíheit par exelans, Þorláksmessa og Sagan af Jesúi.
Basshunter – LOL
Hef nú ekki hlustað á þessa plötu í heild en lögin Boten Anna og Vi Sitter i Ventrilo sitja bara svo í manni sem alveg dásamleg lög að maður á ekki orð.
Belle & Sebastian – The life pursuit
Góð og ljúf plata frá þessum Íslandsvinum(sé rosalega eftir að hafa ekki farið á tónleikana). En þessi plata er feiknaskemmtileg og mikill sumarfílingur í henni.
Decemberists – The Crane wife
Ég er ekki mikið fyrir að flokka tónlist eftir stílum en ég get samt ímyndað mér að sjóræningjar myndu fíla þessa plötu í tætlur. Ég er nú ekki kominn af sjóræningjum en ég dýrka þessa plötu, það er einhver rosalegur sjarmi yfir henni og hún á án efa eftir að lifa lengi hjá mér.
Destroyer – Destroyer rubies
Æjj veit ekki alveg hvað mér á að finnast. Gagnrýnendur dýrka þessa plötu en mér finnst hún frekar skrítin eitthvað. Hef ekki nennt að hlusta á hana lengi og leyfi henni að gleymast þótt platan sé ekkert alslæm.
Eurovison-Eurovison 2006
Eurovison í ár var nú alveg ágætt og nokkur fín lög þarna en auðvitað alveg hellingur af drasli. Alla jafna hlusta ég ekki mikið á píkupopp en í Eurovison er nóg af því og ég stóð mig að því að fíla euroteknólagið Tornero frá Rúmeníu í tætlur og einnig hið fáránlega hallærislega lag Teenage Life frá Bretlandi(þetta með skólastelpunum). Það voru líka nokkur góð lög í íslensku undankeppninni, eins og lögin Andvaka og Þér við hlið, og að sjálfsögðu hún Silvía Nótt okkar sem skeit reyndar dáldið á sig í keppninni sjálfri.
Gnarls Barkley – St. Elsewhere
Gnarls Barkley stimplaði sig rækilega inn í sumar með stuðlaginu Crazy sem gerði bókstaflega allt brjálað út um allt. En á þessari plötu eru mörg önnur stórgóð lög og jafnvel ekki síðri en Crazy, má þar nefna lagið Smiley Faces og Just a thought. Ég veit ekkert í hvaða flokk ég set þessa plötu, enda skiptir það ekki máli heldur er þetta bara frábær plata.
Jeff Who? – Death before disco
Er ekki viss hvort þessi diskur hafi komið út í ár eða árið 2005 en hann er allavega alveg æðislegur og maður þarf lítið meira að segja um þennan disk því ég held að allir viti hvað ég meina.
Kasabian – Empire
Fyrri plata Kasabian fannst mér með þeim skemmtilegri það ár sem hún kom út og var því dálítill spenningur fyrir þessari. Hef því miður ekki hlustað neitt rosalega vel á þessa en við fyrstu hlustanir lofar þetta fínu þótt lögin séu kannski ekkert rosalega eftirminnileg. Besta lagið finnst mér vera Shoot the Runner.
The Killers – Sams Town
Killers ákváðu að breyta um stíl frá fyrstu plötu sinni og ég var hræddur um að það yrði einhver hörmung en hræðsla mín varði þó ekki lengi því eftir að ég heyrði plötuna taldi ég þetta vera skref í rétta átt. Hljómsveitin hefur ekkert gleymt því hvernig á að gera grípandi lög og það er fullt af skemmtilegum lögum hér þó lögin séu kannski ekki til þess fallin að verða eins vinsæl í útvarpi og á Hot Fuss. En bestu lögin finnst mér vera When you were young og Sam’s Town.
The Kooks – Inside in, Inside out
Þessi unga hljómsveit kemur frá Englandi og spilar kannski ekki frumlegasta rokk í heimi en mikið er það nú skemmtilegt. Tónlistin er hress og grípandi þótt textarnir séu margir niðurlútir. Bestu lögin finnst mér vera lagið You don’t love me og Match box. Svo fær hljómsveitin prik fyrir það að heita eftir góðu Bowie lagi.
The Long blondes – Someone to drive you home
Þetta er ótrúlega skemmtileg og grípandi plata og ég held ég hafi hlustað á hana um 10 sinnum í röð sem ætti kannski að segja eitthvað :p Allavega er þetta svona stelpurokk og það mjög gott stelpurokk. Þetta finnst mér ein af plötum ársins og mér skilst að krítíkerarnir úti í heimi séu sammála mér með það. Bestu lögin finnst mér vera Heaven help the new girl og Giddy Strathospheres.
Muse – Black Holes and Revalations
Hér erum við að tala um plötu ársins að mínu mati. Þegar ég heyrði lagið Supermassive Black Hole í útvarpinu hélt ég í alvörunni að hljómsveitin væri að grínast því mér fannst lagið hljóma eins og nýr singull frá N’Sync frekar en Muse. En eftir nokkrar hlustanir var ég farinn að dýrka þetta lag og dansa með og fannst skemmtilegt að hljómsveitin hafi tekið svona stefnubreytingu, þótt einkenni hljómsveitarinnar séu enn til staðar. Platan var nokkuð lengi að vinna á en varð bara betri í hvert skipti sem ég hlustaði á hana. Það eru margir hápunktar á plötunni en helst ber að nefna Exo-Politics, Invincible og Supermassive Blackhole.
The Pipettes – We are the pipettes
Þessi diskur er ekkert nema sumar og sæla í hljóðformi. Þessi hljómsveit er skipuð þremur krúttípúttum sem syngja í anda gamalla sixtýs hljómsveita og gera það vel. Lögin eru öll mjög grípandi og það er ekkert verið að semja einhverjar langlokur því lögin 14 á plötunni renna í gegn á rúmum hálftíma. Bestu lögin finnst mér titillagið og lagið Pull Shapes en það eru mörg önnur góð lög á plötunni. Ókostur plötunnar er helst að gleðin getur stundum borið mann yfirliði en það er nú lítið vandamál.
Red hot chili peppers – Stadium Arcadium
Ég er ekki mjög hrifinn af tvöföldum plötum og var því skeptískur þegar ég frétti að Piprarnir væru með slíka plötu í burðarliðnum. Hljómsveitin hefur alltaf verið í uppáhaldi hjá mér og Frusciante er minn uppáhalds gítarleikari. En hér á þessari plötu eru mörg frábær lög eins og Wet Sand sem inniheldur eitt allra flottasta sóló Frusciante til þessa og einnig eru lögin Snow og 21st Century öflug. Dani California er fínasta lag en hefur verið skemmt með ofspilun í útvarpinu, jafnvel þó ég hlusti lítið sem ekkert á útvarp. Þessi plata hefði verið mun betri sem einföld plata því það eru mörg lög sem renna inn um eitt eyrað og út um hitt.
Rock Star Supernova – Rock Star Supernova
Já hef ekki hlustað á þessa plötu en lögin í þættinum sem þessi hljómsveit spilaði fannst mér svo slæm, leiðinleg og pirrandi að það hálfa væri nóg og finnst mér rétt að vara fólk við þessum horbjóði.
Strokes – First impressions of earth
Þegar ég frétti af nýrri Strokes plötur varð ég strax mjög spenntur enda hef ég dýrkað og dáð fyrri plötur þeirra. Þessi plata byrjar rosalega vel, fyrstu þrjú lögin mjög öflug og grípandi en svo verður þetta einhvernveginn ekki jafn eftirminnilegt og dáldið eins og þeir hafa verið að gera svo oft áður. Þessi plata er þokkaleg en eins og með Stadium Arcadium er þessi plata of löng.
Tool – 10.000 days
Eins og sést á listanum hérna fyrir ofan eru ekki mikið af þungarokkplötum þarna, enda er ég meira fyrir aðeins glaðværari tónlist. En þessa plötu hef ég þó hlustað eitthvað á og finnst hún góð og sérstaklega upphafslagið Vicarious. Þarf kannski að hlusta aðeins betur á hana til að ná snilldinni sem svo fjölmargir segja að búi í þessari plötu.
Niðurstaða:
Besta plata ársins: Muse – Black Holes and Revalations
Næstbestar: The Crane wife og Someone to drive you home
Vonbrigðin: Stadium Arcadium
Kom á óvart: The Kooks
Kom ekki á óvart: Rock Star Supernova
——–
Öll gagnrýni vel þegin ef hún er málefnaleg, en ekki kvarta yfir að ég hafi ekki hlustað á þessa eða hina plötuna því maður getur ekki hlustað á allt.