Það virðist vera náttúrulögmál að stefnur innan rokkgeirans koma og fara….koma síðan seinna aftur í aðeins breyttri mynd og hverfa jafnharðann. Í amerísku meinstrím-rokki tók nu-metallinn við af grönsinu fyrir nokkrum árum og virðist ekki vera að sjá fyrir endann á þessu helvíti (System of a Down, Slipknot og auðvitað Deftones virðast vera þeir einu sem eitthvað hafa fram að færa í þessari markaðshönnuðu drullu). Í öndergrándinu virðist vera farið að örla á þreytu “innanbúðarmanna/fagidjóta” gagnvart póstrokkinu sem bjargaði lífi mínu fyrir nokkrum árum (Þar á ég við t.d. Godspeed You Black Emperor!, Labradford, örlí Mogwai og auðvitað meistarar Slint). Stefnan er náttúrlega búin að vera nokkuð “ráðandi” í ca. 4 ár, en ég er alls ekki orðinn þreyttur og vænti mikils meira af slíkum artistum í framtíðinni. Núna virðist hæpið eða bözzið vera í kringum brjálæðislegt 70's nostalgíurokk með skítugum Velvet Underground-ískum hljóm og einföldum útfærslum. The White Stripes, The Strokes og Lift to Experience eru bönd þessum pælingum. Persónulega finnst mér pabbastrákarnir í Strokes stórskemmtilegir en varast ber allt hæp. Skríbentar eru margir hverjir slefandi yfir The White Stripes en mér finnst þeir dulítið ofmetnir. Þeir ganga allt of langt í nostalgíunni. Lift to Experience eru ekki “New York - CBGB'S skítugir” heldur á kafi í kúamykju úr Texas (enda ættaðir þaðan og eru stoltir af kúrekastígvélunum sínum). Mér finnst sumt með þeim ansi kúl og þeir hafa ýmislegt fram að færa.
Spurningin er samt sú hvort endalaust þurfi að vera að hampa einni rokkstefnu á kostnað annarar. Er “Teljum-bara-í-og-rokkum”-einfaldleikinn í skítugu nýbylgjunni, uppreisn gegn stórfenglegum útfærslum í hinu hádramatíska póstrokki? Á maður að líta á hlutina þannig? Æ, ég veit það ekki. Þessi togstreita er kannski bara ímynduð. Maður á nú víst ekki að gleyma að hljómsveitir leggja ekki inn umsókn varðandi þá tónlistarundirstefnu sem þeim langar að hrærast í. Blaðamenn, plötuútgefendur og svona áhugabjánar eins og ég, flokkum sveitirnar niður. Flestar póstrokk-sveitir hafa yfirleitt fordæmt þetta hugtak og ekki “viljað láta flokka sig” en í þeirri staðhæfingu sveitanna felst yfirleitt barnaleg hræsni. Lengi lifi póstrokkið ……og í raun flest rokk og ról.