Þegar þær fréttir af hryðjuverkunum í Bandaríkjunum bárust nær stöðugt alla seinustu viku þá hugsaði ég út í það hvernig langtíma áhrif þessar aðgerðir myndu hafa á líf Bandaríkjamanna. Að sjálfsögðu hafði ég pælt í því að “Stóri bróðir” tæki brátt völdin og friðhelgi einkalífsins væri nokkuð sem að myndi verða fyrir barðinu á öfgasinnuðum hægrimönnum sem að ráða þó nokkru í Bandarísku þjóðfélagi.
Svo varð mér hugsað til fyrirlestrar sem að ég sat í sumar á Gauk á Stöng þar sem fyrrverandi söngvari rokkhljómsveitarinnar Dead Kennedy’s, Jello Biafra, messaði yfir mannskapnum. Man ég sérstaklega eftir því þegar hann var að segja okkur frá nefnd sem var stofnuð af fyrrverandi varaforsetafrú Bandaríkjanna, Tipper Gore. Nefnd sem átti að hafa það hlutverk að banna allt afþreyingarefni sem þætti “óæskilegt” fyrir æsku Bandaríkjanna.
Nefndin sóttist eftir því að banna tónlist sem innihéldi einhverjar öfgar eða blótsyrði og þess má til gamans geta að “Parental Advisory: Explicit Lyrics” merkið er einmitt afrakstur þeirrar nefndar. En Tipper Gore vildi stíga skrefinu lengra og hreinlega banna það sem þessari nefnd þætti óæskilegt, semsagt ritskoða allt það efni sem gefið væri út til þess að ákveða fyrir fólk hvað það mætti hlusta á! Þetta brýtur í bága við eitt hugtak sem er Bandaríkjamönnum mjög huglægt, “Freedom of Choice” eða frjálst val. Með þessu fengju ungir Bandaríkjamenn ekki að velja sjálfir hvað það væri sem þeir hlustuðu á, svo að sú tillaga gekk ekki í gegn.
En eftir árásirnar á Bandaríkin er sem Bandaríkjamenn séu í einhverju móðursýkiskasti og það er engu líkara en það að Tipper Gore hafi togað í nokkra spotta, því nú er víst búið að banna “ákveðin” lög frá öldum ljósvakans vestra.
Sem dæmi um það eru lög eins og “Walk like an Egyptian” með The Bangles, “It’s A Wonderful World” með Louis Armstrong, “Stairway to Heaven” með Led Zeppelin, “Imagine” með John Lennon og ÖLL lögin með Rage Against The Machine.
Ég ætla ekki einu sinni að byrja á því að reyna að skilja það afhverju ÞESSI lög eru á umræddum bannlista, kannski helst að maður skilji þetta með Rage afþví að þeir eru (voru) rammpólitískt rokkband, en það er ekki eins og þeir hvetji til hryðjuverkaárása í textum sínum.
Sama hvað er hægt að segja slæmt um Bandaríkin þá hef ég alltaf virt þetta land fyrir það að vera með nær óheft málfrelsi, svo sterkt að nær hvaða vitleysingar sem er geti komið sínum skoðunum á framfæri. Þetta er jákvætt, því að við hin sem hlustum á þá getum síðan gert upp um okkur sjálf hvort við nennum að hlusta á viðkomandi.
Þetta er annað sem nefnist skoðanafrelsi.
Skoðanafrelsi hlýtur að flokkast yfir listamenn jafnt og aðrar mannverur í Bandaríkjunum, svo að tónlistarmenn hljóta að mega láta skoðanir sínar koma í ljós í verkum sínum og að leggja blátt bann á verk þeirra vegna skoðanna þeirra er ekkert nema fasismi. Hvað fáum við að sjá næst í Bandaríkjunum? Bókabrennur?
- Pixie