Sælir, ég skrifaði þessa grein fyrst fyrir http://www.mania.stuff.is
Eins og fram hefur komið á lang flestum fjölmiðlum landsins voru Jet Black Joe að gefa út sína fyrstu breiðskífu í tólf ár, séu You Ain't Here og Greatest Hits frátaldar þar sem þær eru best-of plötur. Þetta eru þó bara Gunnar Bjarki Ragnarsson og Páll Rósinkranz sem skipa sveitina á þessari plötu, enda það skipulagið sem þeir hafa haft á Jet Black Joe frá því þeir komu fram á Eldborg árið 2001 eftir fimm ára hlé. Það er greinilegt að þeir hafa skapað sér nýjan stíl á þessum tíma.
Diskurinn byrjar vel, á kraftmesta laginu á honum, Revelation. Þetta lag á alls ekki heima á disknum því það er á stjön við öll hin lögin. Samt hugsa ég að þetta sé auðhlustanlegasta lagið á disknum ásamt næstu þremur. Mjög rokkað lag og grípandi gítarspil hjá Gunnari. Svo fylgja lögin 7, We Come In Peace og Sadness, ég sleppti öðru lagi disksins, Interlude (Jason), þar sem það er varla lag. Maður, Jason væntanlega?, segir sömu setninguna tvisvar sinnum með vélrænni rödd og svo er lagið búið.
Restin af disknum er ekki jafn hlustanleg í fyrsta skiptið, undirspil laganna á disknum minna mig á Suicide Joe - Unplugged, Summer Is Gone I & II og jafnvel Running Out Of Time - Unplugged en söngur Páls eyðileggur þessa viðlíkingu því falsettusöngur einkennir þennan disk. Erfiðar laglínur og þungar í hlustun með falsettusöng? Ég er viss um að það eigi eftir að hrekja frá sér þónokkra hlustendur.
Lögin á eftir Sadness eru mjög erfið í hlustun, og ekki næstum því jafn áhlustanleg eða skemmtileg og Sadness og lögin á undan því, fyrir utan titillag plötunnar Full Circle en það gæti verið að ég hafi vanist því sökum fyrri hlustana áður en ég keypti mér diskinn.
Í heildina er þetta ágætis greipur, ólíkur fyrri diskum og erfiður í hlustun fyrstu skiptin, og skorar 6.5/10 hjá mér núna. Einkunnin gæti breyst eftir fjölda hlustana.