Daniel Paul Johns fæddist 22. apríl 1979 í Newcastle í Ástralíu. Hann byrjaði að læra á gítar 12 ára og stofnaði hljómsveitina The Innocent Criminals með vinum sínum Ben Gillies sem spilaði á trommur og Chris Joannou sem spilaði á bassa.
Þeir breyttu síðan nafninu í Silverchair (sem betur fer!). Þeir slógu fljótt í gegn, enda hrikalega hæfileikaríkir, og fengu plötusamning einungis 15 ára eftir að hafa unnið lagakeppni með smellinum Tomorrow árið 1994.
Fyrsta platan, Frogstomp, kom út ári seinna og varð mjög vinsæl. Gaman að segja frá því, að þeir tóku hana upp á einungis 9 dögum. Hún myndi helst teljast sem grunge.
Önnur plata Silverchair var Freak Show. Hún kom út árið 1997. Hún var tekin upp á þrem vikum, og nú voru textarnir orðnir miklu persónulegri en áður og tónsmíðarnar fjölbreyttari.
Árið 1998 var Daniel hálfsturlaður. Hann var mjög þunglyndur og þetta “stjörnulíf” átti ekkert við hann, enda hafði hann verið hundeltur af ljósmyndurum frá 15 ára aldri. Hann leigði sér hús sem hann bjó í ásamt hundinum sínum Sweep. Hann samdi tónlist og ljóð og teiknaði, og gekk af göflunum. Hann þróaði með sér ofsahræðslu við að yfirgefa húsið, vera á meðal fólks, og þess að borða. Hann var með ofsóknaræði og hélt að fólk væri að reyna að eitra fyrir honum. Þetta þróaðist svo út í slæma anorexíu sem gerði hann mjög veikan. Þetta fór þó allt vel að lokum, og náði hann nokkurn veginn að sigrast á þessum sjúkdómum sem hrjáðu hann.
1999 kom þriðja Silverchair platan út, Neon Ballroom, og á henni voru nánast eingöngu lög sem Daniel hafði samið í sturlun sinni. Hún er mjög ólík fyrri plötum þeirra, og einkennist af fallegum og kröftugum lagasmíðum, samt með klassískum blæ.
Silverchair tóku sér smá pásu árið 2000, en gáfu síðan út enn eina plötuna, Diorama, árið 2002. Hún er líka mjög ólík öllum fyrri Silverchair plötunum. Hún einkennist af gleði og hressleika, og er augljóslega undir miklum áhrifum frá Bítlunum. Hún er mun poppaðri en fyrri plötur þeirra, og fannst sumum Silverchair vera að svíkja rokkið. Þrátt fyrir það er hún þeirra vinsælasti diskur.
Daniel kynntist dansgúrúinum Paul Mac þegar Paul var að vinna með Silverchair á tímabili. Þeir urðu góðir vinir og gáfu saman út EP plötuna I Can't Believe It's Not Rock árið 2000. Árið 2003 byrjuðu þeir að vinna saman að plötu, og þeir kölluðu sig The Dissociatives. Þeir gerðu allt sjálfir, bæði sömdu og pródúseruðu. Diskurinn, samnefndur þeim, kom út 2004 og sló í gegn.
Það varð að hætta við tónleikaferðina sem átti að verða eftir að Diorama kom út, vegna þess að Daniel varð veikur af liðagigt. Á tímabili var hann jafnvel of veikburða til að geta staðið eða bara haldið á gítarnum sínum. En þegar honum var batnað, 2003, lögðu þeir í annan túr sem þeir kölluðu Across the Night túrinn. Þeir hafa ekki farið í tónleikaferðalag síðan.
Silverchair komu þó saman á styrktartónleikunum WaveAid í Ástralíu í janúar 2005 og tóku nokkur lög þar saman við mikinn fögnuð, og þögguðu niður í orðrómum um upplausn hljómsveitarinnar.
Sem stendur eru þeir félagarnir, Daniel, Ben og Chris, að semja lög og taka upp fyrir næstu breiðskífu sína sem á að koma út í lok ársins 2006 eða byrjun árs 2007. Orðrómar eru á kreiki um að hún verði tvöföld. Þeir ætla einnig að spila á nokkrum einstökum tónleikum í Ástralíu nú í ár, og gleður það og kætir.
Fyrir áhugasama bendi ég á heimasíðu Silverchair, www.chairpage.com, þar sem demómyndbönd koma inn vikulega af upptökum á nýjustu plötunni.