Yeah Yeah Yeahs - Fever To Tell Þessi grein birtist líka á www.poppkorn.tk sem er ný tónlistarsíða sem að ég og fleiri höfum byrjað með, erum komin með 10-12 penna sem að munu vera duglegir að skrifa þarna inn plötudóma, umfjallanir um hljómsveitir/tónlistarmenn, tónleikaumfjallanir og fleira skemmtilegt.
Við erum öll 14-16 ára.

Mæli með því að þið kíkið reglulega við á www.poppkorn.tk




Yeah Yeah Yeahs
Fever To Tell
Interscopic
2003


75%/100% - “Fín frumraun hjá skemmtilegri hljómsveit”

Yeah Yeah Yeahs, eins og þetta tríó frá New York kallar sig er sennilega ein mest hæpaða hljómsveit nýrrar aldar (eða var það allavega fyrir þrem árum eða svo). Ég ákvað því um daginn að kíkja á þessa plötu þeirra, “Fever To Tell” og athuga hvort að hæpið ætti sér einhverjar stoðir. Þessi diskur var að vísu gefinn út árið 2003 og er ég því frekar seinn að heyra hann, en þar sem að ég var nýorðinn 12 ára árið 2003 og hlustaði á Írafár þegar að diskurinn kom út þá held ég að mér verði fyrirgefið að hafa ekki heyrt hann strax. Einnig þykir mér vel við hæfi að skrifa um þessa plötu og þessa hljómsveit þar sem að þau munu gefa út nýja plötu, “Show Your Bones”, á morgun. Ekki amalegt það.

Hljómsveitin er vel mönnuð og skartar meðal annars söngkonunni Karen O, sem að er áberandi í ímynd þessarar sveitar og hefur vakið athygli fyrir ansi frumlegan klæðaburð og kraftmikla sviðsframkomu auk þess sem hún er þrusugóð söngkona með grófa rödd sem að getur einnig verið mjúk og yndisleg, eins og til dæmis í laginu “Maps”, sem að mér finnst að öðrum ólöstuðum vera besta lag plötunnar. Heyrði það spilað í Ungmennafélaginu á Rás 2 um daginn og sönglaði það stöðugt daginn eftir, nærstöddum til mikillar mæðu, magnað lag!
Hinir tveir hljómsveitarmeðlimirnir eru trommarinn Brian Chase og gítarleikarinn Nick Zinner sem að leysa hlutverk sín vel af hendi og ná að heilla mig í nokkrum lögum með skemmtilegu trommuhljóði, sem er alveg fáránlega flott þrátt fyrir að vera frekar hrátt.
Gítarinn hefur mjög skemmtilegt hljóð, hrátt og hart og styður vel við rödd Karenar og yfirgnæfir hana aldrei, sem er mjög gott. Gítarriffin eru sum mjög grípandi og skemmtileg, sérstaklega í lögunum “Rich”, “Maps” og “Y-Control” sem eru öll mjög góð og standa uppúr á þessari plötu. Skerandi synthahljóð heyrast síðan öðru hvoru og veita plötunni skemmtilegt yfirbragð, brjóta upp hörðu gítarriffin og koma í fullkomnu mótvægi við rödd Karenar, sérstaklega í laginu Maps.

Þá er ég búinn að telja upp nánast alla kosti þessarar plötu sem eru margir, miðað við að þetta er frumraun sveitarinnar og góð sem slík - en nú er komið að göllunum.
Helstu gallar plötunnar eru þeir að, já þarna eru nokkur góð lög, “Rich”, “Maps”, “Y-Control”, “Date With The Night” og jafnvel “Modern Romance” eru allt skemmtileg lög en fyrir utan það er ekki mikið spunnið í lagasmíðar þeirra og eru nokkur lög þarna sem að eru alger uppfyllingarefni. Uppfyllingarefni pirra mig mikið þegar ég hlusta á plötur, hvað þá plötur sem eru bara 37 mínútur að lengd eins og þessi hér. “Cold Night”, “Black Tounge” og “Man” eru lög sem láta mig langa að hamast á skip takkanum, hlaupa yfir þau og vonast til þess að ég þurfi ekki að heyra þau aftur, sérstaklega “Black Tounge”, það er hundleiðinlegt.

Þessi plata er fín frumraun frá skemmtilegri hljómsveit og ég veit fyrir víst að seinni platan verður betri þar sem að ég nú þegar búinn að heyra nokkur lög af henni og mæli ég með að allir þeir sem hafi gaman að skemmtilegu indie rokki með pönkhrifum skundi sem snöggvast út í búð, kippi með sér einu eintaki af “Show Your Bones” og spyrji afgreiðslumanninn hvort að “Fever To Tell” sé ekki til líka.