Jæja, þið báðuð um það og persónulega finnst mér svona mixdiska greinar bara af því góða. Eins og einhver benti á í korkinum þá kynnti það hann fyrir fullt af nýjum hljómsveitum og eins og flest okkar geta verið sammála um er fátt skemmtilegra en að uppgötva nýja hljómsveit!

Vindum okkur í þetta:

(bendi á að þessi “diskur” samanstendur af mestu af lögum sem eru í mikilli spilun hjá mér þessa dagana sem og einhverjum klassíkerum sem mér þykir sérstaklega vænt um!)

1. Efterklang - Step Aside
Efterklang er dönsk hljómsveit sem ég kynntist í haust á síðasta ári eftir að vinkona mín hafði laumað að mér nýútgefnum disknum þeirra, Tripper. Það er langt, meira að segja mjög langt, síðan geisladiskur hefur gripið mig slíkum heljartökum. Ég spilaði þennan disk, án alls gríns, mörgum sinnum á dag í svona mánuð og ég er ekki enn kominn með leið á honum! Tónlist Efterklang er kannski best hægt að lýsa sem einskonar Electro-glitch-ambient-indie tónlist, eins falleg íslenska og það nú er. Lögin byggjast flest hver upp á “alvöru” hljóðfærum og þá á ég við píanó, gítar, bassi, trommur og fleira þvíum líkt en ofan á það eru sett fleiri fleiri lög af allskonar “klikk” og “trommuheila” hljóðum. Útkoman er ótrúlega þétt heild þar sem þú uppgötvar alltaf eitthvað algjörlega nýtt við hverja hlustun. Bæta má við að það er bæði kvenkyns og karlkynssöngvarar í þessu bandi sem hljómar mjög flott!


2. Tom Waits - Tom Taubert´s Blues
Þessi maður er fyrir löngu síðan búinn að sanna sig sem einn af allra bestu lagahöfundum okkar tíma og með um það bil 15-20 sem liggja eftir hann. Brjálæðisleg, útúrlifuð röddin er algjör andstæða við fallegt píanóspilið og strengina. Textinn er greinilega um mann sem hugsar tilbaka og virðir fyrir sér hvað hann hefur gert vitlaust. Útúrdópuð-útúrdrukkin-útúrreykt rödd Tom Waits gerir þetta lag einstaklega “trúlegt” og maður finnur í alvörunni til með manninum sem hann syngur um. Frábært lag af frábærum disk sem heitir Small Change.


3. Stereolab - Precolator
Einstaklega sumarlegt og skemmtilegt lag frá þessari hljómborðsdrifnu hljómsveit. Byrjar á skemmtilega absúrd hljómborð hljómum og stuðið byrjar fyrir alvöru þegar bassinn og trommurnar koma inn. Frábært bassalínan heyrist vel í gegn og gefur laginu mikið “grúv”. Fátt meira hægt að segja um þetta lag en ef þið eruð í sólskinskapi og viljið eitthvað til að spila í bílnum á meðan þið keyrið á 100 uppí Mosfellsbæ með sólina í augun þá er þetta lagið sem þið eigið að vera að hlusta á!


4. Opeth - Reverie/Harlequin Forest
Besta metalband í heimi að mínu mati! Þetta lag er af nýjasta disknum þeirra sem heitir Ghost Reveries sem hefur fengið glæsilega dóma víðast hvar. Textinn er frábært og setningar eins og: “Searching the darkness and emptiness” og “They´ll never rest, never be at ease” kalla fram gæsahúð, hjá mér allavega. Þetta er svona nokkuð týpískt Opeth lag þ.e. rólegir og harðir kaflar, brjáluð riff, growl, “venjulegur söngur” og dúndrandi kraftur. Get ekki beðið eftir að sjá þetta band spila á Roskilde í sumar!

5. epo-555 - Harry Mambourg
Lag af nýjum disk dönsku hljómsveitarinnar epo-555 sem heitir, Mafia. Þrátt fyrir óþjált nafn býr þessi tónlist til einstaklega skemmtilegt indie-pop tónlist. Áhrifin koma úr öllum áttum, allt frá noise-rock a la Sonic Youth til electro tónlistar á borð við Boards of Canada. En kjarni hljómsveitarinnar, og það sem gerir hana ein góða og hún er, eru ótrúlega grípandi melódíur og taumlaus spilagleði. Þessi hljómsveit spilaði á Crunchy Frog kvöldinu á síðastliðinni Airwaves hátíð og stóð sig með eindæmum vel! Þau eru á leiðinni til landsins aftur núna og spila tvo tónleika á morgun (fimmtudaginn 9. mars). Aðra í Smekkleysu um daginn og svo á Grandrokk um kvöldið. Mæli með að sem flestir mæti og styrki þessa frábæru hljómsvet í för sinni á South by South-West hátíðina í Texas! Ég mæli einnig með fyrri disk hljómsveitarinnar Dexter Fox (fæst í Smekkleysu).


6. Four Tet - Twenty Three
Þennan gæja einfaldlega elska ég! Fór reyndar ekki að hlusta á hann fyrr en í fyrra-haust og er mjög sorgmæddur að hafa ekki uppgötvað hann fyrr! Þetta lag er af disknum hans Pause og hefur í raun allt að geyma sem lag af þessum toga þarf að geyma: Frábæran takt, fullt af “layer-um”, allskonar skemmtileg aukahljóð og góðar melódíur. Lítið meira hægt að segja um þetta lag þannig bara reddið ykkur disknum og hlustið. Þó svo að ég velji þetta lag þýðir það ekkert að það sé betra en hin. Allur þessi diskur er bara snilld! Frábært diskur til að renna í gegn á meðan þú skrifar ritgerð eða reiknar stærðfræði eða eitthvað þannig. Bjargaði mér í gegnum jólaprófin í stærðfræði allavega!


7. Godspeed you! Black Emperor - Sleep
Þetta er eitt af þessum klassíkerum sem ég ætlaði að taka fyrir eins og ég nefndi áðan. Ég hef hlusta á Godspeed mjög lengi og er það bróður mínum að þakka. Minningin um tónleikana þeirra hérna er ótrúlega skýr í hausnum á mér… eða réttara sagt þessi þrjú lög sem ég sá áður en að mér var hent út úr salnum vegna þess að ég vera ekki með skilríki og nátturlega pínulítill! Helvítis skilríki. En allavega, frábært lag og hugsanlega þekktasta lag þeirra fyrir utan lagið East Hastings sem var notað í 28 days later (þegar hann labbar yfir brúna og er svona að komast að því að það séu allir farnir/dánir). Þetta eins og flest önnur Godspeed lög byggist upp af nokkrum köflum og aðalsmerki Godspeed kemur greinilega í ljós í þessu lagi þ.e. að hraða og .. æji ég kann ekki tónlistarorðið yfir það að svona setja meiri styrk í lögin. Samtalið við gamla manninn í byrjun lagsins sem talar um Coney Island og hvernig hann og vinir hans hafi sofið þarna þegar þeir voru ungir veitir laginu ótrúlega flottan svona undirtón og maður finnur leiðann í röddinni þegar hann segir: “But they don´t do it anymore, things change. You see.. they don´t sleep anymore on the beach.” Diskurinn heitir Lift yr. skinny fists like antennas to heaven og ég mæli með honum fyrir alla sem hafa smá þolinmæði. Lögin eru öll í kringum 20 min.


8. Boards of Canada - Julie & Candy
Lag af hinum frábæra disk Geogaddi eftir bresku snillingana í Boards of Canada. Þessi hljómsveit var í raun fyrsta electro hljómsveitin sem ég hlustaði á og fleiri komu í framhaldi af henni. Þessi hljómsveit og þetta lag hefur alltaf átt sérstakan stað í hjarta mér bæði vegna þess að það er einstaklega flott og líka það að það tengist ótrúlega góðum minningum! Segja má að tónlist Boards of Canada sé svona “the soundtrack of your life”. Það sem að ég á við með því að lögin er hægt að túlka á svo marga vegu bara eftir því hvernig skapi þú ert í og diskarnir þeirra spanna svo margar tilfinningar að það er alveg ótrúlegt! Sum lögin eru falleg og glaðleg önnur þung og óhugnarleg!


9. Hudson Wayne - Cannonball
Lag frá einni vanmetnustu hljómsveit sem ég veit um! Fyrsta breiðskífan þeirra, The Battle of the Banditos, er algjör snilld! Einhvertíman heyrði ég þá lýsa tónlistinni sinni sem kántrí-sýru-rokk og á sú fullyrðing alls ekkert illa við. Djúp bassarödd Þráins veiti lögunum flott yfirbragð og rólyndisleg lögin eru hvert öðru fallegra. Þessi plata er þó svolítil svona stemmningsplata sem þú þarf virkilega að hlusta á til þess að meta hana að fullu. Þessi diskur hefur verið mikið í geislaspilaranum mínum og verður bara flottari og flottari og mér líður meira eins og kúreka í hvert skipti sem hann rennur í gegn! Ekki slæm tilhugsun það!


10. De Facto - El professor contra de facto
Þetta er önnur hljómsveit sem ég furða mig mikið á að hafi ekki verið þekktari. Frábært dub hljómsveit með miklum latin áhrifum. Enda kannski ekki skrýtið þar sem að samba-kóngarnir Omar A. Rodriguez-Lopez og Cedric Bixler-Zavala úr The Mars Volta eru við stjórnvöldin í þessu bandi. Einnig eru þarna hljómborðsleikari Volta Ikey Owens og Jeremy Ward heitinn sér um hljóðeffecta og melodicu eins og hann gerði í Volta. Omar og Cedric spila þó ekki að sín venjulegu hljóðfæri heldur spilar Cedric á trommur og Omar á bassa. Frábært band! Diskurinn heitir Megaton Shotblast og er því miður ekki fáanlegur á Íslandi en er til á www.amazon.com.

11. Mogwai - Ratts of the capital
Þetta lag…. þetta lag, þetta lag, þetta lag. Ótrúlegt lag! Eitt það flottasta sem ég hef heyrt. Það gengur einhvernvegin allt upp í því! Það er rosalega lítið hægt að segja um þetta lag annað en að það er á hinum frábært Happy songs for happy people sem mér finnst, andstætt flestum gagnrýnendum og í raun flestum þeim sem hlusta á Mogwai, vera besti diskurinn þeirra! Þetta lag byrjar rólega en nær gríðarlega flottu risi og tekur þig á loft með því! Þessir Skosku lúðar voru að gefa út nýjan disk sem heitir Mr. Beast nú 6. mars held ég. Sá diskur er einnig algjör snilld og hefur verið titlaður einn af bestu art-rock diskum allra tíma!


Ég held að ég hafi þetta ekki lengra að sinni en ég vona að einhverjir hugarar uppgötvi nýjar hljómsveitir hér. Auðvita er fullt sem ég hefði getað sett þarna inn er sleppti setti svona þær hljómsveitir sem mér finnst að fleiri ættu að þekkja!

Takk kærlega fyrir mig!

Árni