Þetta er hljómsveit sem margir hafa kannski heyrt um en aldrei heyrt í. godspeed er hljómsveit sem samanstendur af kanadískum hljómsveitarmönnum og inniheldur t.d. gítarleikara, bassaleikara, fiðluleikara og sellóleikara. Fjöldi þeirra hækkar og lækkar og meðlimir eru ekki allir í föstu hlutverki í hljómsveitinni. Meðlimafjöldinn er yfirleitt um 9. Nafnið kemur úr japanskri heimildarmynd frá 8. áratugnum um mótórhjólamenninguna. godspeed er mjög lokuð hljómsveit og ekki mikið vitað um upphaf þeirra, sögu, né nöfnin á öllum meðlimum.
Fyrsta útgáfa godspeed var spóla sem gítarleikarinn Efrim og bassaleikarinn Mauro gerðu sem kölluð var “All Lights fucked on the Hairy Amp Drooling”. Þetta var ekki mikil útgáfa, 33 kasettur sem ekki er möguleiki að fá eða heyra í nú til dags. Vitað er þó að þetta var allt öðruvísi en það sem kom seinna. Eftir “útgáfuna” stækkaði hljómsveitin og voru komnir 15 manns þegar mest var. Allir komu með eitthvað öðruvísi inn í hljómsveitina sem hafði það markmið að gera eitthvað allt annað en það sem var að gerast í rokki þess tíma. Fyrsta platan hafði ekkert eiginlegt nafn, heldur tákn sem er táknað á netinu sem f#a#oo (þar sem oo á að tákna endaleysi). Vinur minn er með þá kenningu að þetta þýði godspeed for all eternity. Platan kom fyrst út í 500 eintökum á vínyl og innihélt hver plata poka með ýmsum hlutum eins og pennýum sem höfðu verið marðir af lest á teinum. Platan fékk ótrúlega góða gagnrýni sem og næsta platan “Slow Riot for New Zero Canada”. Sú plata var minni, 2 lög, 30 mínútur. NME kallaði þau “seinustu stórsveit aldarinnar” (ég veit að það er nú ekki mikið að marka NME því þeir elska að koma með svona statement). Eftir mikla eftirvæntingu kom þriðja plata þeirra út í fyrra, “Lift Yr. Skinny Fists Like Antennas to Heaven”. Platan er tvöföld og eitt mesta meistarastykki rokksögunnar (að mínu mati).
godspeed spila post rokk, sem er að vísu mjög vítt hugtak, og má líkja þeim (þó þau vilji ekki líkja sér við neitt) við aðrar snilldar post rokk sveitir eins og Sigur Rós, Mogwai og Labradford. Helst má lýsa lögum þeirra (ef lög má kalla) sem lítil synfóníuverk. Þau eru flest öll löng og byrja rólega en verða síðan hraðari og hraðari þangað til þau “springa”. Það er eiginlega ekki hægt að lýsa tónlistinni. Maður verður að heyra þetta.
godspeed eru mjög miklir listamenn og mjög mikið á móti tónlistarbransanum. Þau koma helst ekki fram í viðtölum, engin opinber mynd er til af þeim þar sem sést framan í einhvern og þau setja ekki nafn sitt á plötur sínar. Þau vilja að tónlistin standi fyrir sínu og vilja einnig hafa það frelsi að geta skipt um meðlimi. godspeed eru mjög gagnrýnir á samfélagið og nútímann. Sumir meðlimir ganga alltaf um með diktafón og taka upp áhugaverða hluti. Í laginu “bbf3” er spilað viðtal þeirra við strætisprédikara. Hann byrjar að tala um hvað hann hatar bandarísku ríkisstjórnina og hvernig samfélagið er að fara til fjandans. Síðan telur hann upp öll vopnin sem hann á: M16, nokkra riffla, haglabyssur og skammbyssur. Gott að vita af manni með þessar skoðanir og þessi vopn.
Flestallir meðlimirnir eru með önnur verkefni og hljómsveitir í gangi eins og Fly Pan Am, 10-Speed Bike, Exhaust o.fl. Helst ber þó að nefna sveitina A Silver Mt. Zion sem inniheldur meðlimina Efrim, Thierry og Sophie. Plata þeirra, “He has left us but Shafts of Light Still Grace the Corners of our Rooms” er frábær og rólegri en godspeed. godspeed fóru fyrir stuttu í hlé og gerðu ekki neitt en nú virðist hljómsveitin vera að lifna við aftur. Vona ég að þau geti nú farið að koma til Íslands eins og lengi hefur verið talað um.
Ef þú vilt kynnast godspeed þá bendi ég á lög eins og bbf3, the dead flag blues og annað lagið á seinni disknum á Lift Yr…… (ekki setja upp svip yfir byrjunninni, bíddu bara þangað til að teljarinn segir 5:30)
Kíkið á ftp serverinn: ftp://gybe:metheny@hyphen.rt.fm en þar getið þið náð í lög af tónleikum þeirra. Einnig bendi ég á kazaa forritið (virkar eins og napster) sem finnst á www.kazaa.com godspeed hafa ekkert á móti því að tónlist þeirra sé dreift á netinu eða að tónleikar þeirra séu teknir upp. En ég mæli samt með að þið kaupið ykkur diskana, því godspeed er ein af fáum hljómsveitum sem leggja upp úr því að gera eitthvað við “hulstrin”.
-bbf3
——————-