TOOL - Rúnk eða snilld?
Ég er einn af (alltof mörgum?) Íslendingum sem var á Hróarskelduhátíðinni og upplifði m.a. hina mögnuðu Tool-tónleika. Ég veit ég er ekki fyrsti maðurinn til að segja að ég hafi ásamt ca. 50.000 öðrum verið nánast dolfallinn yfir hinni sönnu rokklist sem þar fór fram. En ég var pínulítið ósáttur yfir Hróarskeldu-uppgjöri hins efnilega tónlistar- og teiknimyndasögublaðamanns Birgis Steinarssonar (Mausverja), í Mogganum um daginn. Hann gaf reyndar Tool-tónleikunum ágætis dóma en gaf í skyn að alltof vélræn og jafnvel gruggug stemmning hafi átt sér stað á sviðinu. Ég er alls ekki sammála því. Tool beittu glæsilegustu aðferðum skjánotkunar sem ég hef nokkurn tímann upplifað á tónleikum. Myndbandasýningin og bakgrunnspælingar söngvarans örvuðu hlustunaráhrifin. Þ.e.a.s. maður var ekki eins og oft áður á Orange-sviðinu að spá í hvað hver meðlimur er að aðhafast ofl. Myndböndin þjónuðu FULLKOMLEGA tónlistinni. Og þvílíkur kraftur í einu rokkbandi! Óaðfinnanleg spilamennska studd af ómanneskulegum söng James Maynard Keenan. Margir Dylan-ískir rokkjálkar kalla sveitir eins og Tool rúnk. Af hverju? Jú af því að þeir halda að fyrst að hljómsveitin leggi svona mikið upp úr “fagskólaðri” og litríkri spilamennsku (oft kallað rokk handa hljóðfæraleikurum) þá hljóta lögin að vera aukaatriði (Ég er að tala um það sem ég kalla Bítlakenninguna. Af því að Bítlarnir, U2 og fleiri sveitir voru meðalskussar á hljóðfæri, kannski fyrir utan snillinginn The edge, þá gáfu menn sér það að þessvegna væru lög þessara sveita kannski betri!! meiri sál í þeim o.s.frv.) Kenningin gæti stundum átt við. Mér hefur stundum þótt hin ágæta The Dave Matthews Band, falla í þessa gryfju. Leggja ofuráherslu á snilldarlega spilamennsku, “taka allan skalann”, stunda hljóðfærafimleika á kostnað laganna sjálfra sem stundum eru slök. Það band inniheldur einnig einn albesta trommara rokksögunnar, Carter Beauford. Og maður er látinn vita af því í lögunum! Þó eru til einstök sannarlega góð lög með þeim. En þetta á EKKI við um hið miklu harðara rokkband Tool. Aenima-platan var mjög góð en þeir hafa stigið skrefið til fulls með Lateralus. Hádramatískt art-progressive rokk er sífellt að koma sterkar inn (Dánarfregnir og jarðarfarir með Sigurrós er lag sem fellur algjörlega undir þessa stefnu þó Sigurrós bekeni vafalaust seint samlíkingu við Tool). En málið er að á tímum þegar skrilljón drasl-numetal bönd frá Ameríku eru enn að taka eítís poppslagara árið 2001 ( sbr. Smooth Criminal-viðbjóðurinn eftir Michael Jackson), þá þakkar maður guði fyrir að það séu til “risaeðlur” eins og Tool og síðrokksveitin Godspeed You Black Emperor!. Bönd sem eru ekki að gangast upp í eitthverjum útþynntum “flipphugsunarhætti” eins og allir hinir. Vilja láta taka LIST sína alvarlega. Það er kúl árið 2001 þegar listin virkar. Kaldhæðnin var fín fyrir 5 árum í rokkinu…. og verður það vafalaust aftur seinna. ÞAÐ ER EKKI ALLT ARTÍ ENDILEGA FARTÍ!!!!