Death Cab For Cutie
Plans
Atlantic
2005
****1/2 / ***** - Frábært
……
Death Cab For Cutie eiga að baki 4 breiðskífur, 2 EP plötur og þar að auki hefur Ben Gibbard (aðalsprauta hljómsveitarinnar) verið sérstaklega duglegur í öðrum verkefnum. Þar ber helst að nefna sædprójekt sem kallast The Postal Service þar sem hann er í electro partý-i ásamt Jimmy Tamborello - og Home Vol. 4, disk sem hann vann með Andrew Kenny en sá diskur er hluti af Home plötu-röðinni. Allt er þetta tónlist sem ég er einstaklega hrifinn af þannig að væntingar mínar til þessarar plötur voru miklar, sérstaklega í ljósi þess að ég er forfallinn Death Cab aðdáandi.
Oft þegar maður býst við svona miklu, þegar kemur að tónverki eða bíómynd (hver kannast t.d ekki við það að fara á mynd sem ALLIR eru búnir að segja að sé frábær en útaf því þá verður myndin ekkert spes, einhver?), þá verður það einmitt oft til þess að maður verður fyrir töluverðum vonbrigðum. Það verður samt að segjast, að það var ekki raunin hér, ef eitthvað er þá hafa þessar væntingar mínar og þessi ást mín á bandinu haft jákvæð áhrif á álit mitt á plötunni.
Ég er nefnilega afskaplega hrifinn af Plans. Þó platan jafnist ekkert á við meistaraverkið Transatlanticism eða snilldina The Photo Album þá kemst hún samt andskoti nærri því. Hljómsveitin á sér tvær hliðar er kemur að því að semja lög. Annarsvegar er það þessi dimma, þunga, rólega og hráa hlið og hinsvegar er það öllu hressari og hlýrri hlið. Plans fellur svo sannarlega í seinni flokkinn þar sem hún er mjög hlý og fínpússuð en engu að síður öllu rólegri heldur en fyrri plötur bandsins.
Þetta er vissulega fimmta breiðskífa hljómsveitarinnar en það má ekki gleyma því að þetta er fyrsta platan þeirra á nýju labeli, risa labeli. Bandið hefur verið að vekja mikla athygli á sér seinustu árin, ekki bara fyrir seinustu plötu sem fékk afar góða dóma en líka á öðrum vígstöðvum en því mega þeir þakka sjónvarps-seríunni O.C, þar sem Seth Cohen, einn karakterinn hefur lýst yfir aðdáun sinni á bandinu, tjaa, í svona eins og öðrum hverjum þætti - og einnig mega þeir þakka frumburði The Postal Service, Give Up, en sú plata vakti gífurlega mikla athygli. Stærri aðdáendahópur og nýtt label, meiri væntingar, meiri tilhlökkun. Þeim tekst samt engu að síður að standast pressuna og skila frá sér hreint út sagt frábærri plötu.
Það má eiginlega segja að um leið og Gibbard opnar plötuna í upphafslagi plötunnar, Marching Bands of Manhattan, með eftirfarandi orðum; “If I could open my arms and span the length of the isle of Manhattan, I'd bring it to where you are.” - þá er ljóst að þetta verður ljúf og þægileg rússíbanaferð í gegnum plötuna, þar sem rússíbaninn gengur ekki bara út á krappar beygjur eða langar brekkur niður á við, heldur frekar út á það að njóta ferðarinnar sem best, með bros á vör. Að vera ekki hræddur, að opna augun og sjá fegurðina, ef við gefum Benjamin aftur orðið; “I wish we could open our eyes, to see in all directions at the same time, ohh what a beautiful view.”
Plans hefur að geyma í poka sínum mikið af gómsætum. Þar er að finna kröftuga melódíska poppsmelli eins og Soul Meets Body en þó er meira um ótrúlega fallegar ballöður eins og I Will Follow You Into The Dark (nokkurs konar A Lack Of Color þessarar plötu). Þessi tvö lög eru vafalaust bestu lög plötunnar. Summer Skin sem fylgir strax á eftir Soul Meets Body er rosalega gott lag, með yndislegum trommuleik og seiðandi rödd Gibbard's fær að njóta sín vel. Different Names For The Same Thing er einnig einstaklega vel heppnað lag, ljúf og fögur byrjun en verður æ kröftugra sem líður á lagið er trommurnar koma inn. Seinni hluti plötunnar færir okkur svo nokkur mögnuð lög í viðbót og platan heldur út góðu tempói alveg fram að seinasta lagi. En þar komum við einmitt að veikasta hlekki plötunnar sem er lokalagið, Staple Song. Staple Song er ný útgáfa af gömlu Death Cab lagi, sem heitir Stability og kom út á samnefndri EP skífu. Upprunlega lagið er rúmar 12 mínútur að lengd en hér er lagið komið niður í 4 mínútur. Ekki er mikil breyting á sjálfu laginu, fyrir utan að það er búið að henda inn nokkrum nýjum gítar-pörtum. Frekar slök útgáfa af annars stórkostlegu lagi og það verður bara að segjast, að Staple Song vantar allan þann kraft og allan þann fílíng sem Stability hefur að geyma.
Sem heild er Plans frábær og falleg plata. Ben Gibbard heldur áfram að sanna sig sem virkilega góður lagahöfundur en lagasmíðarnar eru sterkar og góðar. Þær eru svo fínpússsaðar og skreyttar fallega svo myndist lag að öðrum meðlimum hljómsveitarinnar og þá sérstaklega Christopher Walla sem stendur sig afar vel sem pródúser en hann tók líka mikið þátt í lagasmíðunum auk þess að sinna sínu venjulega hlutverki í hljómsveitinni. Þess má einnig geta að aðrir hljómsveitarmeðlimir eru Nick Harmer og Jason McGerr. Textalega séð er Gibbard áfram stórkostlegur, magnaður og frábær.
Þó að Death Cab For Cutie hafi ekki tekist að toppa seinustu plötu (hver bjóst svo sem við því að þeir myndu toppa Transatlanticism, er það nokkuð hægt?) þá eru þeir á uppleið, því mæli ég sterklega með að þú farir út í búð, ekki seinna en núna og fjárfestir í Plans. Fáðu þér síðan sæti í þægilegum stól, settu heyrnartólin á þig og búðu þig undir að fara í ferðlag, að fara í ljúfa, fallega og þægilega rússíbanaferð sem mun taka þig um heima og geima.