Hér ætla ég aðeins að fræða fólk um eina af mínum uppáhalds hljómsveitum, bandarísku rokksveitina The Strokes.
The Strokes skipa:
Julian Casablancas – Söngur
Nick Valensi – Gítar
Albert Hammond Jr. – Gítar
Fabrizio Moretti – Trommur
Nikolai Fraiture - Bassi
Hljómsveitin innihélt upphaflega söngvarann Julian Casablancas (sonur tískufrömuðsins John Casablancas og ungfrú Danmörk 1965 Jeanette Christjansen), trommarann Fabrizio Moretti og gítarleikarann Nick Valensi, en þeir byrjuðu að spila saman 1998 þegar þeir voru allir í Dwight einkaskólanum í New York. Stuttu seinna kynntust þeir bassaleikaranum Nikolai Fraiture og buðu honum í bandið. Albert Hammond Jr., sonur lagahöfundarins Albert Hammond, kom frá Los Angeles til New York til að læra kvikmyndun við New York Háskóla, og bauð Casablancas honum í hljómsveitina, en þeir höfðu þekkst eftir að hafa verið saman í skóla í Sviss.
Julian Casablancas stofnaði síðan formlega hljómsveitina The Strokes árið 1999, og náðu þeir fljótt nokkrum vinsældum með því að spila á hinum ýmsu klúbbum og á tónleikum í New York. Þeir byrjuðu að spila á litlum klúbbum, en í lok ársins 2000 voru þeir bókaðir á tvo virtari staði, The Mercury Lounge og Bowery Ballroom og vöktu þeir mikla athygli þar og fengu umboðsmann, Ryan Gentles, sem hjálpaði þeim mikið m.a. við að gefa út sína fyrstu smáskífu.
Í maí 2001 gáfu þeir út smáskífuna “The Modern Age”, sem innihélt þrjú frumsamin lög, lögin The Modern Age, Last Nite og Barely Legal. Þessi smáskífa varð mjög vinsæl í Bandaríkjunum og víðar og urðu Strokes sérstaklega vinsælir í Bretlandi. Sveitin fór að spila á tónleikum í Bretlandi við góðar viðtökur og náði m.a. singullinn Hard To Explain í 16. sæti breska vinsældarlistans. Vorið eftir fóru þeir á sitt fyrsta tónleikaferðalag þar sem þeir hituðu upp fyrir hinar og þessar hljómsveitir.
Það má segja að plötuútgefendur hafi slegist um að fá að gera samning við bandið eftir útgáfu The Modern Age, en það var útgefandin RCA sem gerði við þá samning og í október 2001 kom út fyrsta breiðskífa sveitarinnar og bar hún nafnið “Is This It?”. Eftir útgáfu plötunar héldu vinsældir sveitarinnar áfram að aukast og unnu þeir m.a. til þriggja verðlauna á bresku NMA Carling verðlaununum, en það var fyrir að vera bestu nýliðarnir, hljómsveit ársins og besta platan.
Árið 2002 hjá The Strokes fór nánast allt í tónleikarferðalög vítt og breitt um heiminn, og komu þeir fram með hinum ýmsu hljómsveitum, m.a. White Stripes, Weezer og Rolling Stones. Þess má geta að Strokes spiluðu hér á landi á þessu tónleikaferðalagi, nánar tiltekið 2. apríl á Brodway, við góðar viðtökur íslendinga. Á þessu tónleikaferðalagið spiluðu þeir aðallega lögin sem þeir höfðu gefið út á Is This It? en kynntu einnig nokkur ný lög eins og Meet Me In The Bathroom, You Talk Way Too Much og The Way It Is.
Í mars 2003 hófst síðan sveitin handa á nýrri plötu. Það vakti athygli að þeir unnu ekki með sama framleiðanda og þeir gerðu Is This It með, Gordon Raphael, heldur með Nigel Godrich sem hafði m.a. unnið áður með Radiohead og Beck. En í maí endaði samstarf sveitarinnar með Godrich og snéru þeir sér aftur til Raphael og kláruðu plötuna með honum. Platan kom síðan út í október 2003 og bar hún nafnið Room On Fire. Þeir gáfu út singulinn 12:51 sem kynningu á hinu nýja, nýbylgjulega efni sem Room On Fire innihélt. Eftirvænting plötunar var mikil, en hún heillaði því miður ekki jafn mikið og Is This It?, en var þó nokkuð vinsæl og hlaut misjafna dóma. Rétt fyrir útgáfu plötunar hélt hljómsveitin í tónleikaferðalag ásamt hljómsveitinni Kings of Leon.
Í augnablikinu eru The Strokes að vinna að sinni þriðju breiðskífu, og gengur það að sögnum vel og er búist við að platan komi út nú í sumar eða í haust. Hljómsveitin hefur gefið út að efni þessara plötu mun verða nokkuð frábrugðið efni hinna tveggja, þar sem þeir eru ekki að vinna eftir neinum skilafresti, heldur segjast þeir ætla að gefa sér nægan tíma í vinnslu plötunar. Þegar platan er síðan tilbúinn ætlar bandið í stórt tónleikaferðalag um allan heim, og segjast þeir ætla að spila í fleiri löndum og á fleiri stöðum en þeir hafi áður gert, þannig að þetta verður líklegast þeirra stærsta tónleikaferðalag. Ég bind miklar vonir við að einhver bóki þá hingað til landsins í haust, því ég held að hljómsveitin sjálf hafi áhuga á að koma hingað aftur og vona ég að íslendingar hafi áhuga á að sjá hana spila hér aftur.