Grandaddy - Under the Western Freeway Sólin skín, fuglarnir syngja, börn leika sér, kýrnar baula, bændur slá tún, hommar hafa mök, fiskar sofa og holdsveikir missa útlimi á meðan Evrópa minnist stríðsloka. Sjálfum mér leiðist. Það er drepleiðinlegur vordagur í Maí sem ælir daufgulu sólskini yfir próftörnina sem hvílir á yngri kynslóðinni. Því hef ég ákveðið að skreyta veraldarvefinn með einni grein á huga, heil eilífð síðan ég gerði það seinast, meira en ár ef ég man rétt.

Indie/Collage-Rock, Neo-Psychadelic furðulfuglarnir í Grandaddy eru örugglega frumlegustu tónlistarmenn sem ég hef heyrt í á ævi minni. Ef bandinu væri hent á flokkunarkort undir-tónlistarflokkanna mundi hún lenda einhvers staðar á milli Space rokks, Indie Pops, gamalla Psychadelic hljómsveita og Alternative banda. Sjálfur flokka ég þá varla sem Indie-band, enda er hún töluvert eldri en þær sveitir sem tröllríða indie trendinu um þessar mundir og mér finnst hún persónulega ekki passa inn í þann vagn. Hægt er að greina einhver áhrif frá meðal annars eldra efni Mercury Rev (Boces) og Radiohead, jafnvel eitthvað frá Iggy Pop. Grugg-Síð-Nýrokk væri úrskúrður tónlistarspekúlanta Morgunblaðsins ef mér skjátlast ekki. Grandaddy eiga rætur í bænum Modesto í California-fylki í Bandaríkjunum (líktog Pavement – enda hljómsveitin oft borin saman við þá). Það var þar að hinn þrautsnjalli lagahöfundur Jason Lytle kom bandinu saman, til að byrja með ásamt Aaron Burtch (trommur) og Kevin Garcia (bassi). Eftir eitthvað áframapot í bílskúrnum og kassettu upptökur bættust hljómborðsleikarinn Tim Dryden og svo annar gítarleikari (með Lytle), Jim Fairchild. Bandið var ekki lengi að verða helstu tónsmiðir heimamanna og standpína lókal-senunar náði upp í fjallstinda þegar Grandaddy átti í hlut. Óútreiknanleiki sveitarinnar varð sífellt skýrari, lögin andskoti skrautleg og keyrslan á kílómetrahraða. Jason Lytle býr yfir góðri kunnáttu á hljómborð, gítar og er einn heljarinnar penni þegar kemur að textunum. Það sem brennur á vörum þessa snillings er allt frá toppi til táar, húsgögn, þunglyndi vélmenni sem semja ljóð, bílastæði, flugmenn með vondan persónuleika, bylgjulengdir og svo mætti áfram telja upp. Hann er auðséð lang sterkasti hlekkur sveitarinnar og ég veit ekki betur en að hann sé virkur í öðrum böndum líka.

Árið 1996 kom svo út ‘’A Pretty Mess Made By This One Band’’, en þar eru síðustu bílskúrshljómsveitar einkenninn að hverfa úr lögunum og þeir stefna greinilega á æðri brautir. Ári seinna kom svo umræddur diskur, ,,Under the Western Freeway’’ , sem hitti beint í mark, alveg sláin-inn. Hljómsveitin er þar í algjörri hnotskurn og upp á sitt allra, allra besta en ,,Under the Western Freeway’’ kom þeim svo á kortið. Sumir muna kannski eftir lögunum A.M 180 (sem byrjar á eftirminnilegu tölvustefi), sem meðal annars brá fyrir í myndinni 28 Days Later (stórslyslamyndinni, ekki þessa með Söndru Bullock í afvötnun) og laginu ,,Summer Here Kids’’ sem var líka ágætis slagari. Ég heyrði fyrst í þessari hljómsveit hjá félaga mínum núna í haust og varð strax mjög forvitinn. Ég fór að rembast meira við að kynna mér bandið þegar ég datt á lagið ,,The Crystal Lake’’ (af plötunni The Sopthware Slump [2000]) og þá fór þetta að klingja bjöllum, en mig rámaði í lagið sem var eitt sinn ágætis sumar smellur á Radio X. Sá diskur er dimmri, vandaðri og meira verk heldur en ,,Under the Western Freeway’’, og á heima í flokki með plötum á borð við ,,OK Computer’’ með Radiohead. Meistaraverk bandsins ef svo má að orði komast. En ,,Under the Western Freeway’’ er í allt öðrum klassa. Umslagið sýnir vantslitaðan táning með langan háls og stór heyrnartól um hausinn, labbandi undir morgunhimni. Það er eitt við þessa plötu, það er mjög auðvelt að tengjast persónulegum böndum við hana, því mér finnst ekkert lag fara betur í morgunsárið heldur en byrjunarlagið - ,Nonphenomenal Lineage’ og tengi ég það við þennan bakgrunn framan á plötunni, þennan morgunhiminn.

01 - Nonphenomenal Lineage
Lagið byrjar á smá hávaða og svo yfirgnæfa bakgraddir hávaðann með litlum og sætum tónskala. Svo byrjar Lytle að söngla lástemmd - ,,Hello, good morning, Sir – The Results are back’’. Lagið heldur þessari ró og opnar plötuna svo vel að maður sér næstum því fyrir sér gljáandi sólstafi koma smátt og smátt út úr diskahulstrinu þegar líður á lagið.
02 – AM 180
Tölvustefið í byrjun er eitthvað sem ég tel flesta kaupendur plötunnar hafa sönglað einhvern tímann á ævinni. Gott ef þetta var ekki fyrsta lagið sem ég heyrði með þessu bandi og skapar það því sérstakan sess einhversstaðar í líkanum. Ég var að keyra um Þingvelli meðan ég var að frumheyra þetta og tengi ég því plötuna, eða lagið sérstaklega við íslenskt landslag án þess að það dragi stemminguna niður. (Einhverra hluta vegna fannst mér líka voða gott að lesa ,,Furðulegt Háttalag Hunds um Nótt’’ með þetta á fóninum). Lagið er rokkað og skemmtilegt, hittarinn.
03 – Collective Dreamwish of Upper Class Elegance
Keyrslan aðeins sett niður fyrir meðalinn og einfaldur bassagangur, róandi bakhljóð og einfaldir textar eru hér á heimavelli. Aðeins dimmari en hin.
04 – Summer Here Kids
Soldill flösuþeytir hér á ferð og soldil partýtónlist. Summer Here Kids er hinn hittarinn á disknum og lagið sem þeir spara á tónleikum þangað til að þeir eru klappir að minnsta kosti tvisvar upp. Algjör snilld.
05 – Laughing Stock
Þeir fá soldinn mínus í kladdann frá mér fyrir að pæla ekki aðeins meira í þessu lagi, það er einsog það sé hálfklárað þrátt fyrir að það eigi að draga plötuna á seinni hlutan og aðeins að breyta um stefnu. Svartasti bletturinn.
06 – Everything Beautiful is Far Away
Þetta lag er mér stjarnfræðilega hátt í huga og eiginlega mitt uppáhald þótt það skeri sig umtalsvert frá hinum lögum. Það byrjar eins og einhver pirraður náungi sé að flakka hratt milli stöðva og svo fer rólegt gítargaul af stað. Það sem er skemmtilegt við lagð er hvað það hangir á þráðum textasmíðar Lytles, en það fjallar um mann sem býr langt frá öllu því sem honum þykir vænt um og saknar þess. (Stepped outside and came to smoke, the cigarette he made from rolled-up photo-paper, there were pictures of things back on earth, and he repeated to himself, everything beautiful is far away). Lagið hoppar á milli táknrænna texta og grípandi, sönglauss viðlags.
07 – Under the Western Freeway
Þetta er ekkert lag, bara eitthvað stef sem endurtekur sig í svona tvær mínutur, en er samt mjög einkennandi fyrir plötuna einhverra hluta vegna. Hugur manns reikar aftur til plötuumslagsins þegar mðaur heyrir það. Náunganum með heyrantólin á hausnum bregður fyrir ef svo má segja.
08 – Poisoned at the Hartsy Thai Food
Þetta er heldur ekki lag í þeim skilningi, heldur svokallaður ,,interlude’’ eða alveg samhengislaus og sönglaus millikafli. Hver einasta plata Grandaddy hefur einn svona gaur. Djassað og dularfullt.
09 – Go Progress Chrome
Skínandi perla, algjör singalong og soldil sveitastemming í þessu. Hængurinn á því er sá hversu stutt lagið er.
10 – Why Took Your Advice
Píanódrivið, sorglegt og dramatíkst lag sem er í raun lokalagið á breiðskífunni. Þeir breyta lítið um andann í laginu og skipta nærri því aldrei um takt en blanda samt saman öllu sem þeir hafa gert fram að þessu lagi.
11 – Lawn And So On
Ég túlka þennan hljómagang sem framhald af ,Why Took Your Advice’ en þetta eru svipuð lög og hreint frábær lokasprettur.

Þessi plata er ekkert nema snilld og ég set m-ið í að mæla með þegar ég mæli með þessari. Algjör gullmoli með meiru. 9,5/10.
Grandaddy hafa líka gefið út (Signal to Snow Ratio [E.P], The Sophtware Slump, Sumday [nýjasti] og Concrete Dunes [B-Side/Rarities Collection]).

Aðalheimild: allmusic.com og eigin þekking á bandinu. (ekki misskilja, ég þekki ekkert gauranna bara fíla þá svo vel)